148. löggjafarþing — 21. fundur,  5. feb. 2018.

leiga á fasteignum ríkisins.

81. mál
[16:45]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Helga Vala Helgadóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég er komin hingað upp til að spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra um leigu á fasteignum ríkisins. Spurningar þær sem ég hef lagt fyrir hæstv. ráðherra eru eftirfarandi:

1. Hversu margar fasteignir ríkisins eru leigðar forstöðumönnum eða öðrum starfsmönnum hins opinbera til eigin nota?

2. Hvernig er leigufjárhæð fyrrgreindra eigna ákveðin og af hverjum?

3. Eru einhverjar kvaðir varðandi framleigu eignar eða hluta eignar? Nýta einhverjir forstöðumenn eða starfsmenn sér möguleika á framleigu og hvaða reglur gilda um fjárhæð leigu og hagnýtingu leigutekna?

Herra forseti. Hér er um sjálfsagðar spurningar að ræða enda um töluverða hagsmuni eigenda að ræða, þ.e. íslensks almennings. Ljóst er að ekki hefur verið að öllu leyti uppi á borðum hverjar eignir okkar eru, þ.e. hvaða fasteignir, hvar þær eru staðsettar né heldur hvaða reglum úthlutun slíkra eigna lýtur.

Fyrir áramót átti sér stað í fjölmiðlum umfjöllun um ákvörðun kjararáðs á launum til handa biskupi Íslands. Í umræðu um ákvörðun kjararáðs greindi biskup m.a. frá þeim kvöðum sem á embættinu væru, nefnilega þeim að biskupi væri gert að búa í embættisbústað biskups í hjarta Reykjavíkurborgar, nánar tiltekið við Bergstaðastræti. Greint var frá því að biskup þyrfti að greiða leigu sem er mánaðarlega 86.270 kr. með hita og rafmagni. Þessar upplýsingar fáum við á sama tíma og ófremdarástand ríkir á leigumarkaði hvar leiguverð hækkar jafnt og þétt og sligar á stundum ungar barnafjölskyldur. Fyrir sömu upphæð, 86.000 kr., fá háskólanemar svo dæmi sé tekið 29 fermetra stúdíóíbúð á stúdentagörðum með hita og rafmagni.

Herra forseti. Umræddur biskupsbústaður er langt í frá eini embættisbústaðurinn sem um ræðir. Sýslumenn víða um land njóta eða nutu a.m.k. lengi vel viðlíka fríðinda, eða kvaða eftir því hvernig á það er litið, sem og forstöðumenn. Þessi umræða fyrir áramót kveikti því forvitni hjá þeirri sem hér stendur varðandi fasteignir ríkisins almennt og hvernig útleigu á íbúðarhúsnæði er háttað. Það þarf að ríkja algjört gagnsæi varðandi val á leigjendum, varðandi ákvörðun á leiguverði og ekki síður varðandi það hvort leigjendur fái heimild eigenda til framleigu á hluta leigðra eigna hvar sem er um landið.

Ítreka ég því þessar þrjár spurningar sem lagðar hafa verið fyrir hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra.