148. löggjafarþing — 21. fundur,  5. feb. 2018.

leiga á fasteignum ríkisins.

81. mál
[16:48]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að mikilvægt sé að fá þessi mál fram og mér finnst það fagnaðarefni að fá tækifæri til að gera grein fyrir þeim álitamálum sem hv. þingmaður bendir hér á. Ég hef tekið saman svör við þessum þremur tilgreindu spurningum.

Varðandi fjölda fasteigna ríkisins er það þannig að það eru um 95 fasteignir eða íbúðarhúsnæði í eigu ríkissjóðs sem eru leigðar forstöðumönnum eða öðrum starfsmönnum hins opinbera til eigin nota hér á landi. Í flestum tilvikum er um að ræða fasteignir til nota fyrir heilbrigðisstarfsfólk, um 50 eignir, um 20 eignir eru leigðar til kennara og annarra starfsmanna á menntasviði. Þá eru um 25 eignir leigðar til annarra starfsmanna, eins og sýslumanna, lögreglustjóra og þjóðgarðs- eða landvarða svo að dæmi sé tekið. Aðeins um 12 af þessum 95 eignum eru leigðar til forstöðumanna eða sambærilegra starfsmanna.

Þess má einnig geta að sumar þessar eignir eru aðeins til afnota fyrir starfsmenn í skamman tíma eins og afleysingafólk á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni. Langflestar þessar eignir eru staðsettar á landsbyggðinni þar sem ríkið er með opinbera starfsemi. Í mörgum tilvikum er einnig um að ræða íbúðir sem eru hluti af stofnanahúsnæði eins og húsnæði heilbrigðisstofnunar eða heimavistir skóla. Slíkar eignir eru oft illseljanlegar einar og sér.

Þá hefur nær ekkert íbúðarhúsnæði verið keypt eða byggt á vegum ríkisins um árabil. Íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins til nota fyrir starfsmenn hefur af þessum sökum farið verulega fækkandi á undanförnum árum, en sú meginregla gildir að ríkið leggur ekki starfsmönnum sínum til íbúðarhúsnæði nema því aðeins að þeir gegni störfum í þeim landshlutum þar sem staðhættir gera slíkt nauðsynlegt eða vegna sérstakra gæslustarfa sem krefjast þess að þeir þurfi að búa á vinnustað.

Varðandi leigufjárhæðina sem spurt er um þá er það þannig að leigufjárhæð þessara eigna tekur almennt mið af lögum um íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins og af reglugerð um sama efni sem gildir sérstaklega um húsnæði sem notað er til íbúðar fyrir starfsmenn ríkisins. Samkvæmt lögunum ber starfsmönnum ríkisins að greiða ríkissjóði leigu fyrir slíkt húsnæði til eigin nota. Húsaleigugjaldið skal almennt ákveðið með reglugerð og miðast við markaðsleigu. Þar sem eðlilegur húsaleigumarkaður er ekki fyrir hendi er hins vegar heimilt að miða húsaleigu við brunabótamat, staðsetningu og notagildi eignar.

Í samræmi við lög um íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins tekur leigugjaldið því annaðhvort mið af markaðsleigu á viðkomandi svæði eða sem ákveðið hlutfall af brunabótamati og búsetusvæði hins leigða. Leigusamningar eru í flestum tilvikum gerðir af þeirri stofnun sem hefur eignina til umráða, en fjármálaráðuneytið og fagráðuneyti viðkomandi stofnunar þurfa að staðfesta alla langtímaleigusamninga.

Að lokum er spurt um kvaðir varðandi framleigu eignar eða hluta hennar og hvernig sé með nýtingu á slíkum heimildum. Því er til að svara að ráðuneytið hefur almennt litið svo á að um persónubundin réttindi sé að ræða sem tengjast starfi viðkomandi einstaklings. Í því húsaleiguformi sem útgefið er af ráðuneytinu, sem ætlast er til að stofnanir ríkisins noti við leigu á íbúðarhúsnæði í þeirra umráðum, kemur af þessum sökum skýrlega fram að leigjanda er óheimilt að framselja leigurétt að hluta eða öllu leyti án samþykkis leigusala. Þá kemur einnig fram í samningsforminu að það teljist þó ekki framsal á leigurétti eða framleiga þótt leigjandi heimili nákomnum skyldmennum sínum búsetu í hinu leigða húsnæði ásamt sér eða fjölskyldu sinni, enda haldist tala heimilisfólks innan eðlilegra marka miðað við stærð og gerð húsnæðisins.

Eins og áður er vikið að þá er það fyrst og fremst á forræði þeirra sem fara með umráð eignanna að ganga frá samningum af þessu tagi. Af þeim sökum og vegna þess hvernig framkvæmdin er þá hef ég ekki hér til svara neitt um það nákvæmlega í hversu mörgum tilvikum þessar heimildir hafa verið nýttar.