148. löggjafarþing — 22. fundur,  6. feb. 2018.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Alex B. Stefánsson (F):

Virðulegur forseti. Ég er kominn hingað í dag til að óska nýrri stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna velfarnaðar í störfum sínum. Sú stjórn fær í vöggugjöf þann mikla vanda sem íslenskir iðn- og háskólanemar eiga við að etja. Núverandi kerfi hefur þróast í eins konar fátæktargildru sem háskólanemar eiga við að etja. Í alvarlegustu tilvikunum getur þetta haft veruleg áhrif á jafnrétti til náms.

Sú afkáralega staðreynd að aldraðir í þessu þjóðfélagi hafa hærra atvinnutekjumark en iðn- og háskólanemar er því miður sá raunveruleiki sem námsfólki er boðið upp á. 930.000 kr. skerðingarmörk eru fyrir marga undir sumartekjum þeirra. Með skerðingarhlutfalli LÍN og tekjuskatti er námsmönnum boðið upp á kerfi sem skerðir tekjur þeirra upp á tæp 82%. Það er óréttlátur hátekjuskattur á lágtekjufólk. Það liggur í augum uppi.

Nei, herra forseti, í núverandi kerfi er bannað að vera duglegur. Það er ekki í samræmi við þá frjálslyndishugsjón að í þessu samfélagi geti hver og einn bætt sína framtíð og sitt líf. Árið 2011 kom fram í viðamikilli könnun innan Háskóla Íslands að meira en helmingur námsmanna sótti sér ekki viðeigandi heilbrigðisþjónustu vegna kostnaðar. Sú staðreynd er þyngri en tárum taki að unga fólkið okkar geti ekki sótt þá nauðsynlegu læknisaðstoð sem það þarf. Í alvarlegustu tilvikunum þarf það að taka hlé frá námi vegna þess kostnaðar.

Sá sem hér stendur hefur verið í þeirri stöðu að þurfa að taka hlé frá námi vegna heilbrigðiskostnaðar. Ég óska engum að lenda í því en allt of margir námsmenn fá ekki viðeigandi heilbrigðisþjónustu.

Hækkun á atvinnutekjumörkum LÍN er líkleg til að draga úr svartri atvinnustarfsemi og auka heildartekjur ríkissjóðs. Í þessum málaflokki þarf snör handtök því að vandinn er mjög alvarlegur. Því treysti ég nýrri stjórn LÍN til að ráðast í þetta á komandi misserum.