148. löggjafarþing — 22. fundur,  6. feb. 2018.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða störf hv. fjárlaganefndar, störfin fram undan og þá stóru áskorun eftir lúkningu fjárlaga 2018 sem blasir við, þ.e. framkvæmd fjárlaga.

Nefndin hefur nú til umfjöllunar þrjú mál sem öll tengjast því rammaverklagi sem lög um opinber fjármál setja okkur og ekki síður markmiðum þeirra laga, þ.e. þingsályktun um fjármálastefnu, þingsályktun um gerð stofnefnahagsreiknings fyrir ríkissjóð í heild og einstaka ríkisaðila í A-hluta og svo frumvarp til lokafjárlaga 2016.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis frá því í desember sem snýr að framkvæmd fjárlaga frá janúar til júní á liðnu ári er farið m.a. yfir þróun gjalda og tekna á fyrri hluta ársins. Dregið er fram að niðurstöður bendi til þess, þegar kemur að því sem við köllum fylgni við fjárlög, að setning nýrra laga um opinber fjármál hefur ekki hingað til aukið til muna, eins og lagt var af stað með, festu í fjármálastjórn ríkisins.

Þessi áskorun einskorðast auðvitað ekki við hv. fjárlaganefnd en þann þátt í störfum okkar sem heitir aðhald og eftirlit með framkvæmd fjárlaga og hvað veldur frávikum frá fjárheimildum. Á tíðum eru auðvitað eðlilegar skýringar á því, útgjaldatilefnin eru ýmist vanmetin við fjárlagagerðina eða vannýttar vegna frestunar verkefna og tekjur. Það er hins vegar mikilvægt að við vinnum að bættri áætlunargerð, auknum sveigjanleika við framkvæmd fjárlaga og viðeigandi notkun varasjóða eins og lögin gera ráð fyrir.

Allt að einu snýr þessi áskorun að því að vinna að markmiðum laganna, auka festu, stöðugleika og aga við framkvæmd fjárlaga. Pólitísk stefnumörkun er nauðsynleg en ábyrgðin er um leið (Forseti hringir.) mikil.