148. löggjafarþing — 22. fundur,  6. feb. 2018.

störf þingsins.

[13:45]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég rakst um daginn á grein eftir hv. þm. Kolbein Óttarsson Proppé og bað hann um að eiga orðastað við mig í störfum þingsins um málið. Í þessari grein fjallar þingmaðurinn um gamaldags átakastjórnmál, skoðun sem má finna meðal þingmanna Samfylkingarinnar um einhver vinstri-svik. Hv. þingmaður svarar greininni efnislega mjög vel og málefnalega en ágreiningurinn þar fjallar um krónur og prósentur sem er óþarfi að rekja nánar hér.

Það sem vekur hins vegar athygli mína í greininni er tvennt. Í fyrsta lagi er kvartað undan stimplinum vinstri-svik og hann sagður vera gömul átakapólitík sem engu skili og stjórnarandstaðan hvött til að taka höndum saman með ríkisstjórninni. Í öðru lagi er minnst á áherslu á bætt vinnubrögð.

Um þetta er viðkomandi að segja: Ég tek undir gagnrýni hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés á orðinu vinstri-svik en ég virði þau orð jafnframt sem góða og gilda skoðun. Ég tek undir þann skilning að um gamla átakapólitík gæti verið að ræða en dæmi þá skoðun ekki nauðsynlega sem slíka.

Því finnst mér svar hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés, um að vinstri-svik séu gömul átakapólitík, vera gömul átakapólitík. Að svara í sömu mynt er, að mínu mati, gömul átakapólitík sem á ekki heima innan einhvers konar betri vinnubragða. Ég verð því að spyrja mig, og hv. þingmann, hvers vegna ég sem þingmaður í stjórnarandstöðu og í gagnrýnishlutverki ætti að taka höndum saman með ríkisstjórninni þegar vinnubrögðin þar eru enn gömul miðað við að við erum enn þá hér að reyna að útskýra fyrir dómsmálaráðherra og fjármálaráðherra hvað þau gerðu rangt við skipun dómara, uppreist æru og feluleik með skattaskjólaskýrslur.

Hver ber ábyrgð á því að stunda betri vinnubrögð? Sá sem er í hlutverki gagnrýnanda eða sá gagnrýndi? Þó að gagnrýnin sé kannski ómálefnaleg, verður svarið samt ekki að vera málefnalegt?