148. löggjafarþing — 22. fundur,  6. feb. 2018.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Sé horft til síðastliðinna 10–20 ára sést að við erum einkar lagin við að flækja stjórnsýslu, t.d. varðandi þjóðgarða. Það eru um átta til tíu stofnanir og stjórnir, fyrir utan ráðuneyti, sem véla um þau mál.

Nú er nýútkomin skýrsla frá Ríkisendurskoðun um stjórnsýslu ferðamála. Hún kom í október síðastliðnum. Niðurstaðan er tiltölulega einföld: Það er hátt eða of hátt flækjustig og ónóg skilvirkni þar á bæ. Ef við horfum yfir sviðið höfum við stjórnir þjóðgarðanna, við höfum Umhverfisstofnun, Ferðamálastofu, Íslandsstofu, Ferðamálaráð lengst af. Nú hefur Stjórnstöð ferðamála bæst við. Sveitarstjórnir, Samgöngustofa, markaðsstofur landshluta og svo ráðuneyti. Eflaust gleymi ég einhverju.

Hér þarf greinilega úrbóta við. Ég hvet hv. þingheim til að leggjast á eitt um það og fara þá m.a. eftir ábendingum Ríkisendurskoðunar.

Það er margt ágætt í ferðaþjónustunni en annað miður. Ég ætla að nefna tvennt sem dæmi. Það er heimagisting, eða það sem við köllum langtímaleiga íbúðarhúsnæðis. Dæmi um það er Airbnb. Það er alveg augljóst að það fyrirkomulag og fjöldinn hefur vaxið mörgum sveitarfélögum yfir höfuð. Annað sem ég ætla að nefna eru þrír staðir á Suðurlandi þar sem boðin er gisting í föstum tjöldum. Þar eru leyfi óljós, fasteignagjöld óljós, skipulagsatriði óljós og öryggismál óljós. Einnig þar er verk að vinna, að sjá til þess að komið sé böndum á slíkt.