148. löggjafarþing — 22. fundur,  6. feb. 2018.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Þegar við ræðum bankakerfið, umfang og þjónustu þá þurfum við að horfa til þess að við erum fámenn þjóð og markaðurinn er lítill en við þurfum jafnframt að koma okkur upp regluverki og eftirliti með fjármálastarfsemi sem nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar og trausts. Það er einnig forsenda þess að hér sé rekin samkeppnishæf utanríkisverslun.

Við verðum líka að vera með öfluga neytendavernd á fjármálamarkaði. Lánveitingar mega ekki vera eins og hver önnur sölumennska sem stjórnast af því hvað veitir fjármálastofnun og stjórnendum hennar hámarkshagnað. Lántakandinn þarf að vera vel upplýstur og hafa fullnægjandi greiðslugetu. Bankinn á ekki að hafa leyfi til að ýta honum út í skuldafen. Það þarf að jafna samningsstöðu og áhættu lánveitanda og lántakanda og slíkt er sérstaklega mikilvægt nú á tímum þegar aðgengi að lánsfé er ótrúlega gott og afgreiðslan gengur mjög hratt fyrir sig með rafrænum hætti.

Það er nauðsynlegt að ríkið beiti eigendaáhrifum sínum í bönkunum til að stuðla að heppilegri og hagkvæmari þróun á fjármálamarkaði og skipulagi hans. Áhættan í starfseminni er enn borin, að stærstum hluta, af viðskiptavinum og skattborgurum.

Framtíðarskipan fjármálakerfisins á Íslandi þarf að miða að því að kerfið verði öruggt, skilvirkt og hæfilega umfangsmikið fyrir þjóðarbúskapinn. Í framtíðinni verði fjárfestingarbankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi aðskilin. Almenningur verði varinn fyrir áhættufjárfestingarbankastarfsemi og til verði bankar sem sjá um þjónustu á eins ódýran máta og mögulegt er við fólk og venjuleg fyrirtæki. Greiðslukerfið og fjárfesting með lágmarksáhættu verði hluti af almennri þjónustu við fólkið í landinu.

Við eigum að endurskipuleggja bankakerfið en það verk getur ekki beðið lengi, lengi eftir enn einni skýrslunni eða enn einni nefndinni.