148. löggjafarþing — 22. fundur,  6. feb. 2018.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Nú berast fréttir utan úr heimi um að ekki gangi of vel á hlutabréfamörkuðum. Nasdaq hrundi niður um 1.176 punkta í gær og hefur gengið eitthvað niður í dag. Svona atburðir eru til að minna okkur á hætturnar sem leynast í hagkerfinu. Manni verður hugsað til þess hvernig best sé að verjast öðru hruni.

Í lífríkinu er fjölbreytni ein af forsendum þolgæðis gagnvart snöggum breytingum. Hagkerfi Íslands er frekar einsleitt eins og við þekkjum. Ferðaþjónustan er rúmlega 30% af vergri landsframleiðslu, samanborið við 16% á Spáni, sem er nú land sem þekkt er fyrir mikinn ferðamannastraum. Stærsta iðngrein Þýskalands, bílaiðnaðurinn, skilar 12,8% af útflutningstekjum landsins. Okkar stærstu geirar eru töluvert stærri en það.

Fjölbreytni atvinnuvega er nauðsynleg. Við verðum að stuðla að henni. Ýmsir möguleikar eru fyrir hendi: Bein markaðssetning og styrking Íslandsstofu til að hvetja til frekari beinna fjárfestinga á Íslandi; að laða fyrirtæki til Íslands frá Bretlandi sem geta ekki starfað utan innri markaðarins í Evrópusambandinu; að höfða til nýsköpunarfyrirtækja í geirum þar sem regluverk, t.d. í Bandaríkjunum, er of þungbært fyrir þau og gæti verið skárra hér og að auðvelda aðgengi að okkar mörkuðum — þetta eru almennt augljós skref og fleira mætti telja til.

Samhliða þessu þarf að gera skráningu fyrirtækja ódýrari, rekstur þeirra einfaldari, flutninga á fjármagni fyrirsjáanlegri með skynsamlegri peningastefnu og flutninga á vinnuafli mannúðlegri með fjölbreyttari formum dvalarleyfa og atvinnuleyfa, bættri rafrænni stjórnsýslu og færri handahófskenndum gjöldum. Við hljótum að geta tekið á þessu. Þetta er það sem mun gera okkur kleift að bregðast við á betri hátt þegar fjármálamarkaðir heimsins fara í einhvers konar rússíbanareið.