148. löggjafarþing — 22. fundur,  6. feb. 2018.

afleiðuviðskipti, miðlægir mótaðilar og afleiðuviðskiptaskrár.

93. mál
[14:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár. Frumvarpið er á þskj. 160 og mál nr. 93.

Frumvarpið, sem unnið var í ráðuneytunum með aðstoð frá nefnd skipaðri helstu haghöfum, felur í sér innleiðingu reglugerðar ESB nr. 648/2012, um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár í íslenskan rétt.

Meginefni frumvarpsins er lögfesting reglugerðarinnar og nauðsynlegra ákvæða þar að lútandi svo sem um hvernig eftirlit með ákvæðum frumvarpsins fer fram, um heimildir eftirlitsaðila til upplýsingaöflunar, aðfararhæfi ákvarðana Eftirlitsstofnunar EFTA og EFTA-dómstólsins, viðurlagaákvæði, kæru til lögreglu og heimild ráðherra til að setja reglugerðir. Sú ESB-reglugerð sem um ræðir var tekin upp í EES-samninginn haustið 2016.

Meginefni frumvarpsins er eftirfarandi:

1. Tilkynna skal um alla afleiðusamninga til afleiðuviðskiptaskrár, sem er nýr starfsleyfisskyldur aðili á fjármálamarkaði sem safnar saman og viðheldur gögnum um afleiður.

2. Stofna skal tiltekna OTC-afleiðusamninga hjá miðlægum mótaðila, en OTC-afleiðusamningar eru afleiðusamningar sem ekki eru með viðskipti á skipulegum verðbréfamarkaði. Miðlægur mótaðili er nýr starfsleyfisskyldur aðili á fjármálamarkaði sem stillir sér upp á milli aðila og verður nýr kaupandi gagnvart hverjum seljanda og öfugt. Hann gerir kröfur um tryggingar til að lágmarka áhættu við uppgjör og kemur þannig í veg fyrir keðjuverkun vanskila á markaði.

3. Nýjar kröfur um áhættustýringu vegna OTC-afleiðusamninga sem ekki eru stöðustofnaðir hjá miðlægum mótaðila.

4. Umgjörð um starfsemi miðlægra mótaðila og afleiðuviðskiptaskráa.

Virðulegi forseti. Þau ákvæði sem lögð eru til í frumvarpinu munu hafa áhrif á öll afleiðuviðskipti hér á landi, í flestum tilvikum þó aðeins með þeim hætti að gerð er krafa um að öll slík viðskipti séu tilkynnt. Áhrifin eru meiri ef stunduð eru viðskipti með OTC-afleiður. Frumvarpið mun hafa takmörkuð áhrif á almenna fjárfesta og lítil og meðalstór fyrirtæki þar sem afleiðuviðskipti þeirra eru óveruleg. Fyrir þessa aðila er aðallega um að ræða fyrrgreinda tilkynningarskyldu um afleiðuviðskipti, en einnig kröfur um innra skipulag vegna áhættustýringar ef stunduð eru viðskipti með OTC-afleiður.

Áhrif á fjármálastofnanir og aðra aðila sem stunda veruleg OTC-afleiðuviðskipti eru meiri. Til þeirra eru gerðar kröfur um stöðustofnun eins og það er nefnt OTC-afleiðna, áhættustýringu og meðhöndlun trygginga vegna samninga sem ekki eru stöðustofnaðir, auk þess að skila inn upplýsingum um afleiðusamninga.

Kostnaður sem þessu fylgir verður nokkur, en að miklu leyti er um að ræða einskiptiskostnað við að koma á sambandi og samningum við miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár, auk innleiðingar og smíði nýrra ferla og verklags við áhættustýringu.

Hvorki er gert ráð fyrir að miðlægur mótaðili né afleiðuviðskiptaskrá muni hefja starfsemi hér á landi sökum smæðar markaðarins. Það skiptir verulega miklu máli að ekki sé gert ráð fyrir að miðlægur mótaðili eða afleiðuviðskiptaskrá muni hefja starfsemi hér á landi sökum smæðar markaðarins. En að mati Fjármálaeftirlitsins mun frumvarpið auka á verkefni eftirlitsins sem nemur hálfu til einu stöðugildi miðað við núverandi aðstæður. Gert er ráð fyrir aukningunni í rekstraráætlun eftirlitsins fyrir árið 2018. Kostnaði vegna aukinna krafna er mætt með hærra eftirlitsgjaldi. Eru nettóáhrif á ríkissjóð því lítil sem engin.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að lokinni þessari umræðu og svo til 2. umr. í þinginu.