148. löggjafarþing — 22. fundur,  6. feb. 2018.

afleiðuviðskipti, miðlægir mótaðilar og afleiðuviðskiptaskrár.

93. mál
[14:10]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja spurningar sem hæstv. ráðherra hefur kannski lítillega komið inn á með þeim orðum að hér verði ekki stofnuð afleiðuviðskiptaskrá eða miðlægur mótaðili vegna smæðar hagkerfisins. Ég velti fyrir mér við að lesa þetta frumvarp hvort Fjármálaeftirlitið muni þurfa einhverjar frekari eftirlitsheimildir en er að finna í frumvarpinu. Það hefur verið gagnrýnt af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að Fjármálaeftirlitið hafi ekki þær tennur sem það þarf til að sinna sínu eftirliti og hafa komið fram uppástungur annars staðar úr samfélaginu um að það eftirlit verði sett inn í Seðlabankann. Hugmyndir sem ég veit ekki hvað hæstv. ráðherra finnst um, né reyndar mörgum öðrum ef út í það er farið.

Burt séð frá því finn ég ekki í fljótu bragði neinar sérstakar heimildir í frumvarpinu handa Fjármálaeftirlitinu til að sinna þessu hlutverki fyrir utan heimildir til að leggja á sektir. Þarna er jú eitt ákvæði með fangelsisrefsingu. En ég velti fyrir mér hvort einhver þörf sé á að skoða sérstaklega heimildir Fjármálaeftirlitsins með tilliti til þessa frumvarps. Eða eru þetta viðskiptalegir gjörningar sem eru einfaldlega ekki af þeirri stærðargráðu hérlendis að það þurfi svo mikið eftirlit með þeim yfir höfuð?