148. löggjafarþing — 22. fundur,  6. feb. 2018.

afleiðuviðskipti, miðlægir mótaðilar og afleiðuviðskiptaskrár.

93. mál
[14:31]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki viss, bara oft ekkert viss, um hvort þessi EES-mál stangist á við stjórnarskrána eða ekki. En það er ekki nógu góð staða, það dugar mér ekki. Ég vil að stjórnarskráin okkar sé skýr, að það sé óumdeilt hvað hún þýði, jafnvel þó að manni sé ekki sérstaklega vel við einstök ákvæði. Það eru alveg ákvæði í frumvarpi stjórnlagaráðs sem mér er persónulega illa við, alveg eins og í gildandi stjórnarskrá. Eins og menn eiga að vita.

Ég tel mikilvægt að festa þetta í stjórnarskrá til að það hætti í það minnsta að þvælast fyrir. Og svo ég segi það bara á íslensku: Ég er ekki í einhverjum pólitískum leik. Ég hef ekkert á móti þessu máli efnislega. Ég er hlynntur því efnislega. Ég hef ekkert á móti EES, ég er hlynntur EES. Ég vildi óska þess að ég gæti einfaldlega greitt atkvæði með þessu og fagnað því að hafa lært svo mikið af því að kynna mér þetta mál eins og mörg önnur. En ég bara er ekki þar út af þessu. Því þetta stendur alltaf út af. Það er vandamál fyrir mig sem þingmann, vandamál fyrir mig sem borgara, og mér finnst það vandamál fyrir þjóðina líka, fyrir hinn óbreytta borgara, sem reynir að skilja stjórnsýsluna sína og lögin, sem er verið að samþykkja, út frá gildandi stjórnarskrá og getur ekki lesið út úr henni heimildina til að gera þetta.

Það er ekki eins og þetta spretti upp úr einhverju tómarúmi, ekki eins og þetta komi upp með villimennskunni í Pírötum. Þetta umræðuefni hefur verið til staðar frá því að við gengum inn í EES og af góðri ástæðu. Þannig að umfram allt finnst mér mikilvægt að það sé skýrt.

Ég held ekki að með setningu framsalsákvæðisins eins og er að finna í frumvarpi stjórnlagaráðs væri verið að útvíkka réttinn samkvæmt skilningi hæstv. ráðherra. Þvert á móti mætti færa rök fyrir því að verið væri að þrengja hann vegna þess að það eru settar aukalegar kröfur, nefnilega þjóðaratkvæðagreiðslu til samþykktar í frumvarpi stjórnlagaráðs. En síðan í þingskjali 1111 á 141. þingi, breytingartillögu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í framhaldsnefndaráliti, er gert ráð fyrir auknum meiri hluta þingsins, þremur fimmtu þingsins, til þess að samþykkja. Þannig að það eru auknir varnaglar með því ákvæði sem ég myndi ekki segja að væru að auka þær heimildir, þ.e. ef ég gef mér að ég væri sammála hæstv. ráðherra um þær heimildir sem stjórnarskráin á víst að veita nú þegar.