148. löggjafarþing — 22. fundur,  6. feb. 2018.

afleiðuviðskipti, miðlægir mótaðilar og afleiðuviðskiptaskrár.

93. mál
[14:36]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra nefnir að þetta sé óumdeilt meðal fræðimanna og ég ætla að gefa mér að svo sé, án þess endilega að taka undir það. Ég þori ekki að fullyrða neitt slíkt sjálfur. En óháð því þá dugar það mér einfaldlega ekki. Það dugar mér ekki að lesa almenn hegningarlög og fá ráðgjöf sérfræðinga til að segja mér hvað þau þýða. Það dugar mér ekki að sérfræðingar séu sammála um eitthvert tæknilegt en þó mikilvægt atriði úr stjórnarskrá lýðveldisins Ísland. Stjórnarskrá lýðveldisins á að vera skiljanleg hinum almenna borgara. Það á ekki að þurfa að karpa svona mikið um hana. Hér á þingi sinnum við bara okkar lýðræðislega hlutverki við að efast um löggjöf sem kemur frá ríkisstjórninni. Það er beinlínis hlutverk okkar, það er í starfslýsingunni. Við værum að trassa vinnu okkar ef við stæðum ekki í því. Það er það sem er svo leiðinlegt.

Mér þætti best að þetta væri skýrt. Þá þyrftum við ekki að ræða það heldur væri það á hreinu. Ég geri vitaskuld ráð fyrir því að slíkt framsalsákvæði væri vel gert, það væri gert þannig að sátt væri um það og það væri skýrt og myndi útskýra fyrir óbreyttum borgurum og snarvitlausum þingmönnum, eins og þeim sem hér stendur, hvernig þetta allt saman á að virka án þess að fá samhljóða álit sérfræðinga, með fullri virðingu fyrir þeim og mikilvægu innleggi þeirra í þetta.

Hvað varðar grundvallarspurninguna er það rétt sem hæstv. ráðherra fer út í í sambandi við tveggja stoða kerfið og allt það. En þar er aftur sama svarið: Ef ég segi við hinn almenna borgara að tveggja stoða kerfið sé lausn á þessu þá skilur hann ekki hvað ég er að tala um. Ég þarf að fræða hann alveg óheyrilega mikið, bara til þess að hann skilji þennan einfalda punkt, hvort við séum yfir höfuð sjálfstæð þjóð eða ekki í umræðunni sem fylgir. Það dugar ekki. Við verðum að hafa ákvæði í stjórnarskrá sem gerir þetta skýrt þannig að við séum öll á sömu blaðsíðu, (Forseti hringir.) fræðimenn sem hinn almenni borgari, um það hvað við erum að gera þegar við tökum þátt í annars góðu og mikilvægu samstarfi eins og EES-samstarfinu.