148. löggjafarþing — 22. fundur,  6. feb. 2018.

afleiðuviðskipti, miðlægir mótaðilar og afleiðuviðskiptaskrár.

93. mál
[14:38]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Hér hefur verið drepið á afar athyglisverðum málum. Ég vil fyrst taka fram að ég er efnislega sammála því frumvarpi sem hér er eða ég hef að minnsta kosti ekki sérstaka fyrirvara við það á þessu stigi. Mér þykir mjög athyglisverð sú umræða sem farið hefur fram um stjórnarskrá og heimildir til að framselja vald og vil ég þakka hæstv. fjármálaráðherra og hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir innlegg þeirra í þá umræðu.

Ég minnist þess að ég átti orðastað við núverandi hæstv. forsætisráðherra þegar við ræddum um innleiðingu á evrópsku eftirlitskerfi á fjármálamarkaði á 146. löggjafarþingi. Þar var margt athyglisvert sagt. Meðal annars var niðurstaða þáverandi hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur, nú hæstv. forsætisráðherra, eftirfarandi, svo ég vitni beint í hana, með leyfi forseta:

„Af þeim sökum er mér mjög erfitt að styðja þetta mál þótt markmið lagasetningarinnar séu með þeim hætti sem ég lýsti hér áðan.“

Hún var ekki á móti frumvarpinu, en ég man ekki betur en að hún hafi setið hjá og sennilega flestallir þingmenn Vinstri grænna við afgreiðslu þess máls. Ef ég vitna meira í orð hv. þm. þá, Katrínar Jakobsdóttur, þá einmitt vitnar hún hér í nefndarálit þar sem fram kemur að það er mikill vafi á því að heimildir til framsals standist stjórnarskrá. Ég get ekki tekið undir það með hæstv. fjármálaráðherra að þetta sé algerlega óumdeilt. Að minnsta kosti var málið það umdeilt að Vinstri grænir treystu sér ekki á þeim tíma til að styðja það út frá þessum forsendum.