148. löggjafarþing — 22. fundur,  6. feb. 2018.

afleiðuviðskipti, miðlægir mótaðilar og afleiðuviðskiptaskrár.

93. mál
[14:56]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir afar athyglisverða ræðu. Hann tæpti þar á málum sem eru býsna merkileg og þurfa kannski lengri umræðu en rúmast í því formi sem hér er.

Það er tvennt sem ég myndi vilja spyrja hæstv. ráðherra út í eða biðja hann að hugleiða með mér. Ég vitnaði hér til afstöðu núverandi hæstv. forsætisráðherra og efasemda hans um stjórnarskrá og þær lausnir sem við höfum þurft að búa við. Hefur farið fram eitthvert sérstakt samtal milli hæstv. ráðherra og forystumanna í ríkisstjórninni um þessa stöðu? Ég þykist að minnsta kosti greina, og vona að ég leggi ekki neinum orð í munn, að áherslumunur sé á milli forystumanna ríkisstjórnarinnar um þetta mál.

Hæstv. fjármálaráðherra minntist líka á annað mál, sem mér þótti býsna merkilegt. Ég þarf eiginlega að spyrja beint að því: Er hæstv. fjármálaráðherra að boða að Íslendingar muni fara fram á endurskoðun EES-samningsins? Mér fannst hann fara giska langt í þá átt án þess að segja það beinlínis en það mátti heyra á máli hæstv. ráðherra að hann liti þessa stöðu býsna alvarlegum augum. Ég verð að segja að það eru talsverð tíðindi, ef ég skil ráðherrann rétt, að Íslandi finnist það orðið svolítið einangrað, önnur EFTA-ríki í EES-samstarfinu séu eftirgefanleg og sveigjanleg en Ísland standi gjarnan eitt eftir.

Þess vegna spyr ég beint: Er hæstv. fjármálaráðherra að boða endurskoðun EES-samningsins?