148. löggjafarþing — 22. fundur,  6. feb. 2018.

afleiðuviðskipti, miðlægir mótaðilar og afleiðuviðskiptaskrár.

93. mál
[14:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel í raun engan ágreining vera á milli stjórnarflokkanna, hvorki milli Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna né annarra, eins og Framsóknarflokks, um að það sé mikið grundvallaratriði þegar um framsal valdheimilda er að ræða að við virðum þær reglur sem gilda um ytri mörk slíks framsals. Vissulega hafa komið upp einstök mál í þinginu þar sem reifuð hafa verið ólík sjónarmið um hvort við séum alveg á mörkunum eða réttum megin við þau. Við höfum þá reynt að leysa úr því með svipuðum hætti og við gerðum þegar gengið var í EES-samstarfið á sínum tíma, að leita til okkar færustu sérfræðinga, fá ráðgjöf og fá fram túlkun, sem ég lít svo á að muni alltaf þurfa jafnvel þótt við færðum þessi ákvæði inn í stjórnarskrá. Það muni alltaf þurfa að túlka tilvikin.

Varðandi það hvort ég sé að boða endurskoðun á EES-samningnum er ég það nú ekki. Ég er mikill stuðningsmaður þess að við byggjum tengsl okkar við Evrópusambandið á Evrópska efnahagssvæðinu og þessum samningi. En ég er einfaldlega að benda á að þetta er tvíhliða samningur. Hann felur í sér réttindi og skyldur, má segja, allra sem að honum standa. Meðal þeirra réttinda sem við sömdum um þegar við gerðumst aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu var að samningurinn og sú starfsemi sem fram færi undir merkjum hans byggðu á tveggja stoða lausnum. Þegar Evrópusambandið er farið að þrýsta á í hverju málinu á fætur öðru að vikið sé frá þeirri grundvallarreglu sé ég ekki betur en að við séum í stöðu til að segja: Heyrðu, þetta er ekki partur af samningnum, ekki hluti hans. Það er ekki hægt að fara fram á þetta undir fána EES-samstarfsins. Þarna held ég að við þurfum að gaumgæfa betur rétt okkar og stöðu gagnvart Evrópusambandinu vegna þess að sú vél er með mjög mikinn skriðþunga og veltur áfram (Forseti hringir.) á móti hvers kyns mótbárum. Og já, stundum kemur fyrir að samstarfsríki okkar hafa gefið eftir. Það er samt ekki einkenni á starfi þeirra innan EES-samningsins. En þegar það gerist hjálpar það okkur ekki.