148. löggjafarþing — 22. fundur,  6. feb. 2018.

afleiðuviðskipti, miðlægir mótaðilar og afleiðuviðskiptaskrár.

93. mál
[15:03]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil vera alveg skýr varðandi kröfuna um að við framseljum vald til stofnana sem við eigum ekki aðild að, það megum við aldrei gera. Ég tel að það sé ekkert ríki Evrópu sem mundi samþykkja að gera eitthvað slíkt. Ég þekki engin dæmi um að menn geri það með opin augun að undirgangast einhverjar alþjóðastofnanir og boðvald þeirra án þess að eiga aðild að viðkomandi stofnunum. En það er í grunninn það sem Evrópusambandið er að fara fram á í litlum hænufetsskrefum.

Við höfum brugðist við þeirri kröfu með því að búa til einhvers konar bræðing á milli þeirrar kröfu og hinnar lausnarinnar sem er skýr tveggja stoða lausn. Þarna finnst mér við vera komin á grátt svæði, ég segi það alveg eins og er. Það er líka það sem lögfræðiálitin fjalla um. Þau segja: Þetta er orðið mjög grátt svæði. Og sérfræðingar eru alveg eins líklegir til að segja að það gangi upp eins og að það gangi ekki upp.

Aðalatriði þess sem ég vek athygli á í dag er að við þurfum að þekkja stöðu okkar innan EES-samstarfsins þegar slík krafa rís. Ef þetta fer að verða æ algengara, eins og mér sýnist, að Evrópusambandið setji fram skýlausa kröfu um að EFTA-ríkin undirgangist boðvald Evrópusambandsstofnana sem við eigum ekki aðild að, þá kallar það á viðbrögð, það hlýtur að gera það. Ef þau leiða á endanum til þess að við þurfum að taka EES-samninginn til endurskoðunar þá gerum við það. Við gerum það alltaf frekar en að fallast á kröfu sem er óásættanleg. Ekki bara að hún stangist á við stjórnarskrána heldur er bara algjörlega út í hött að nokkurt ríki myndi undirgangast slíka kröfu.