148. löggjafarþing — 22. fundur,  6. feb. 2018.

afleiðuviðskipti, miðlægir mótaðilar og afleiðuviðskiptaskrár.

93. mál
[15:06]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er nú að hluta til meðsvar vegna þess að mér finnst þetta vera annað áhyggjuefni sem varað hefur verið við í dágóðan tíma, þ.e. að EES-samstarfið myndi alltaf þróast í þessa átt með einhverjum hætti, að það yrðu sífellt meiri kröfur um að við myndum gera hlutina eins og Evrópusambandið vildi án þess að hafa nógu mikið um það að segja til þess að sporna almennilega gegn því. Ég tek undir það sem hæstv. ráðherra fór yfir varðandi þann vanda.

Eins og margt annað í þessu efni þá kemur þetta kannski ekki öllum á óvart. Þetta er eitt af áhyggjuefnunum sem menn hafa haft í gegnum tíðina. Þá er spurt: Hvað er til ráða? Hvað gerum við í því? Jú, á einhverjum tímapunkti gætum við farið í það að endurskoða EES-samninginn. Ég velti þá fyrir mér samningsstöðu Íslands eða EFTA-ríkjanna yfir höfuð gagnvart Evrópusambandinu eftir þær breytingar sem átt hafa sér stað frá 1992. Brexit náttúrlega er eitt risastórt spurningarmerki í allri þeirri jöfnu, þannig að ég get svo sem ekki ætlast til þess að hæstv. ráðherra svari því hér og nú hvernig hægt væri að sjá fyrir sér slíkt ferli, enda er það ekki tímabært. En mig langar samt að spyrja hæstv. ráðherra hvernig við eigum að sporna við þessu. Mér finnst það nefnilega ekki skýrt. Ég tek það gott og gilt ef það er ekki ljóst á þessum tímapunkti.

En ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir að nefna þetta vegna þess að það er mjög mikilvægt að það komi fram og að við ræðum þetta hispurslaust án þess að vera hrædd við að það gæti móðgað eina eða tvær alþjóðlegar stofnanir.