148. löggjafarþing — 22. fundur,  6. feb. 2018.

afleiðuviðskipti, miðlægir mótaðilar og afleiðuviðskiptaskrár.

93. mál
[15:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lít þannig á að skylda okkar sé fyrst og fremst sú að greina nákvæmlega stöðu okkar og rétt til þess að hafna öllum slíkum tilburðum Evrópusambandsins. Við ættum síðan að taka málið upp á sameiginlegum vettvangi EFTA-ríkjanna sem standa að EES-samstarfinu. Varðandi síðan þróunina og hversu fyrirsjáanlegt þetta hafi verið, má segja að undanfarin ár höfum við séð mikla viðleitni innan Evrópusambandsins til þess að auka og þétta samrunann, en það hefur ekki verið án undantekninga. Við erum með breska dæmið til vitnis um það. Og svo erum við auðvitað með sjálft Evrópusambandið til vitnis um að menn hafa farið mjög ólíkar leiðir.

Sumir eru í evru-samstarfinu, aðrir ekki. Einstök ríki hafa samið um afmarkaðar undanþágur. Nýju ríkin þurfa að gleypa allan matseðilinn meðan gömlu ríkin hafa búið við sérlausnir sem eiga rætur sínar í því hvernig Evrópusambandið var þegar þau gengu inn, eins og t.d. Danmörk. Það var ekki ófrávíkjanleg krafa að ganga í myntsamstarfið þegar Danmörk gekk inn. Nýju ríkin myndu ekki komast upp með það. Hin aukna krafa Evrópusambandsins um einsleitni hefur valdið spennu í Evrópusambandinu. Sú spenna hefur brotist út með ýmsum hætti. Við höfum Brexit sem eitt dæmið.

Við sjáum líka að ný stjórnmálaöfl rísa víða í Evrópu og taka til sín þó nokkuð mikið fylgi. Það var ekki bara eitthvert innihaldslaust blaðamál að tæpt stæði bæði í Hollandi og Frakklandi í síðustu kosningum hvor fylkingin hefði yfirhöndina þegar upp væri staðið; þeir sem vildu út eða þeir sem vildu vera áfram inni. Menn vörpuðu öndinni léttar þegar þeir sem vildu vera áfram inni urðu ofan á. Nú eru þeir að tala um að herða enn kjarnasamstarfið. Það getur aftur kallað fram aðrar afleiðingar í öðrum ríkjum. Kannski sjáum við færri ríki með þéttara (Forseti hringir.) samstarf og síðan aðrar lausnir í jaðrinum sem munu mögulega endurspegla það sem Bretar eru að fara að semja um. Það er ekki gott að sjá það allt fyrir, (Forseti hringir.) en við þurfum að halda vöku okkar um stöðu okkar.