148. löggjafarþing — 22. fundur,  6. feb. 2018.

raforkulög og stofnun Landsnets hf.

115. mál
[15:11]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Hv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á raforkulögum og lögum um stofnun Landsnets hf., með ýmsum breytingum, á þskj. 184.

Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar minni háttar breytingar á raforkulögum, nr. 65/2003, og lögum um stofnun Landsnets hf., nr. 75/2004. Um er að ræða atriði sem rekja má til ábendinga frá Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, og atriði sem sett eru fram til einföldunar og til að gæta samræmis. Einnig er með frumvarpinu lagt til að fellt verði úr gildi ákvæði sem snýr að stofnun Landsnets og hefur ekki þýðingu í dag. Nánar tiltekið eru efnisatriði frumvarpsins eftirfarandi: Í fyrsta lagi er með frumvarpinu lögð til breyting er varðar setningu og staðfestingu svokallaðra netmála, samanber 1. gr. frumvarpsins.

Samkvæmt 9. gr. raforkulaga hefur flutningsfyrirtækið Landsnet heimild til að setja reglur um kerfisstjórnun sem staðfestar eru af ráðherra. Í daglegu tali eru þessar reglur kallaðar netmálar og eru í raun nokkurs konar tæknilegir skilmálar.

Með frumvarpinu er lagt til að samþykki netmála færist frá ráðherra til Orkustofnunar enda er það almennt í höndum eftirlitsaðila að samþykkja slíkar reglur í samræmi við raforkutilskipun ESB.

Í reglugerðum sem settar eru á grundvelli raforkulaga kemur fram að flutningsfyrirtækið á að setja sér frekari reglur um ýmsa aðra þætti en kerfisstjórnun. Netmálar Landsnets snúast þannig ekki eingöngu um kerfisstjórnun heldur snúa þeir líka að almennum leikreglum og viðskiptalegum atriðum.

Hefur netmálum verið skipt í fimm flokka: almenna skilmála, viðskiptaskilmála, rekstrarskilmála, tengiskilmála og hönnunarskilmála. Þrátt fyrir orðalag 6. mgr. 9. gr. núgildandi raforkulaga hafa allir netmálar verið sendir ráðherra til staðfestingar, burt séð frá því hvort þeir varði kerfisstjórnun eða ekki.

Með frumvarpinu er brugðist við þessu í samræmi við ábendingar frá Orkustofnun og Landsneti og lagt til að orðalag laganna nái til allra tegunda netmála og að sama skapi gerð krafa um staðfestingu Orkustofnunar varðandi alla netmála, þ.e. að allir netmálar, ekki bara þeir sem fjalla um kerfisstjórnun, séu staðfestir af þar til bæru stjórnvaldi sem er raforkueftirlit Orkustofnunar.

Með þessu er því verið að styrkja eftirlit með setningu netmála og tryggja að fyrirkomulagið sé í samræmi við raforkutilskipun ESB. Taka ber fram að ekki er verið með þessari breytingu að skapa grundvöll eða auka heimildir Landsnets til setningar nýrra netmála sem ekki eru til staðar í dag. Þvert á móti er verið að gera ríkari kröfur til setningar og staðfestingar netmála.

Í öðru lagi er með frumvarpinu lögð til samræming í tilvísun innan raforkulaga til stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Með lögum nr. 26/2015, um breytingu á raforkulögum, var bætt við ákvæði í raforkulög, þess efnis að ráðherra skuli á fjögurra ára fresti leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Í 9. gr. núgildandi raforkulaga er fjallað um kerfisáætlun um uppbyggingu flutningskerfis raforku og stefnu stjórnvalda um lagningu raflína og með frumvarpi þessu er lagt til að þar verði, til að tryggja samræmi innan laganna, einnig vísað til stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

Tillaga til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku var sett í opið samráðs- og kynningarferli síðasta sumar og var uppfærð útgáfa hennar lögð fram og samþykkt á fundi ríkisstjórnar 23. janúar og ráðgert er að leggja þá þingsályktunartillögu fram á Alþingi síðar í þessari viku.

Í þeirri tillögu til þingsályktunar er m.a. lagt til að núverandi stefna stjórnvalda um lagningu raflína sem samþykkt var í maí 2015 með þingsályktun nr. 11/144 gildi áfram í eitt ár á meðan frekari rannsóknar- og greiningarvinna á sér stað á möguleikum á sviði jarðstrengja eins og nánar er greint frá í þingsályktunartillögunni. Á endanum er fyrirséð að þingsályktun um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku nái einnig yfir stefnu stjórnvalda um lagningu raflína, þ.e. að síðarnefnda stefnan verði hluti af fyrrnefndu stefnunni. Að svo stöddu er hins vegar rétt að í raforkulögum sé vísað í báðar þessar stefnur. Nánar verður komið inn á þetta samspil þegar ég mæli fyrir áðurnefndri tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku, sem ég held að verði á fimmtudaginn, alla vega í þessari viku.

Í þriðja lagi er með frumvarpinu lagt til að orkumálastjóri skili árlega skýrslu til ráðherra um framkvæmd raforkueftirlits Orkustofnunar og rekstrarupplýsinga vegna þess. Í núgildandi raforkulögum er gert ráð fyrir að orkumálastjóri skili eingöngu skýrslu til ráðherra með rekstrarupplýsingum vegna raforkueftirlits Orkustofnunar. Er því hér lagt til að skýrslan nái einnig til framkvæmdar þess eftirlits, raforkueftirlitsins. Þessi breyting er lögð til í ljósi ábendinga frá ESA og ákvæða raforkutilskipunar ESB um að eftirlitsaðilar skuli birta árlega skýrslu um eftirlitsstörf sín.

Ég vil árétta að þessi skylda felur ekki aðeins í sér skyldu til að skila framangreindri skýrslu, heldur einnig til að birta hana opinberlega. Ég vil því beina því til hv. atvinnuveganefndar að tryggja að orðalag þessa ákvæðis raforkulaga nái einnig til skyldu til að birta hina árlegu skýrslu, ekki eingöngu skila.

Í fjórða lagi er með frumvarpinu lagt til að fellt verði brott ákvæði 3. gr. laga nr. 75/2004, um stofnun Landsnets hf., en það snýr að skipun stjórnar Landsnets við stofnun þess. Í 3. gr. laganna er kveðið á um að ríkissjóður Íslands sé eigandi alls hlutafjár í Landsneti við stofnun þess, ráðherra fari með eignarhlut ríkisins og stjórn Landsnets skuli skipuð þremur mönnum sem ráðherra fær til starfans án tilnefningar.

Íslenska ríkið hafði á sínum tíma forgöngu um stofnun Landsnets sem ætlað var að annast raforkuflutning og kerfisstjórnun samkvæmt ákvæðum III. kafla raforkulaga, nr. 65/2003. Eins og fram kemur í frumvarpi því er varð að lögum nr. 75/2004 var gert ráð fyrir að eftir stofnun Landsnets skipaði iðnaðarráðherra stjórn til bráðabirgða, sem ætlað var að koma fram fyrir hönd félagsins við mat á verðmæti flutningsvirkja, auk annarra lögbundinna stjórnarstarfa samkvæmt lögum um hlutafélög. Gert var ráð fyrir að stjórnin sæti aðeins þar til endanleg niðurstaða fengist um verðmæti flutningsvirkja og þar með um eignarhlutföll hluthafa í félaginu. Þegar sú niðurstaða væri fengin mundi ríkissjóður á grundvelli heimildar í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 75/2004 selja allt hlutafé sitt í Landsneti til þeirra eigenda flutningsvirkja sem legðu eignir sínar til Landsnets á grundvelli samkomulags um eignarhlutföll milli einstakra hluthafa á grundvelli verðmætis flutningsvirkjanna.

Í desember 2004 framseldi iðnaðar- og viðskiptaráðherra alla hluti ríkissjóðs í Landsneti til Landsvirkjunar, Rariks og Orkubús Vestfjarða en Orkuveita Reykjavíkur bættist síðar í hluthafahóp Landsnets. Við afsalið var 3. gr. laganna í raun þýðingarlaus. Stjórn Landsnets hefur á undanförnum árum verið skipuð á aðalfundi Landsnets úr hópi eigenda Landsnets, þ.e. áðurnefndra orkufyrirtækja. Núverandi hluthafar Landsnets telja æskilegt að fjölga stjórnarmönnum úr þremur í fimm. Til samanburðar eru stjórnir Landsvirkjunar, Rariks og Orkubús Vestfjarða skipaðar fimm stjórnarmönnum og stjórn Orkuveitu Reykjavíkur skipuð sjö mönnum.

Upphaflegri þriggja manna stjórn Landsnets var aðeins ætlað að vera bráðabirgðastjórn á meðan félagið hefði litla sem enga starfsemi. Í ljósi núverandi verkefna og hlutverks félagsins er talið mikilvægt að fjölga stjórnarmönnum. Samsetning stjórnar þarf að vera í samræmi við starfsemi og stefnu félagsins, þróunarstig þess og aðra viðeigandi þætti í rekstri þess og umhverfi. Þá skapar fjölgun stjórnarmanna möguleika á að auka enn á fjölbreytni og breidd í hæfni, reynslu og þekkingu. Fyrirhugað er að breyta samþykktum Landsnets þannig að stjórnarmenn verði fimm, telja verður eðlilegt að ákvæði hlutafélagalaga gildi alfarið um samsetningu stjórnar Landsnets þannig að í samþykktum félagsins sé kveðið á um fjölda stjórnarmanna. Með 7. gr. þess frumvarps sem ég mæli hér fyrir er því opnað fyrir að málum verði þannig hagað.

Hæstv. forseti. Ég hef hér reifað efnisatriði frumvarpsins, en að því er mat á áhrifum varðar þá er tilgreint í athugasemdum við frumvarpið að verði frumvarpið að lögum felur það í sér ákveðna einföldun, samræmingu og lagfæringu á ákvæðum raforkulaga og laga um stofnun Landsnets. Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki fyrirséð að það hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.

Ég legg því til að frumvarpinu verði að lokinni umræðu vísað til hv. atvinnuveganefndar og 2. umr.