148. löggjafarþing — 22. fundur,  6. feb. 2018.

raforkulög og stofnun Landsnets hf.

115. mál
[15:19]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt að hleypa hæstv. ráðherra héðan út eftir þetta án þess að ræða aðeins um valdframsal og Evrópska efnahagssvæðið. Tillögur þessa frumvarps eru í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum, eins og hæstv. ráðherra kom inn á. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir undir kaflanum Evrópa og viðskiptakjör, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin telur það vera eitt mikilvægasta hagsmunamál Íslands að sinna framkvæmd EES-samningsins vel og Alþingi þarf að vera virkara á því sviði.“

Ég vil spyrja í því samhengi, og af því að hæstv. ráðherra gefur færi á umræðu, hvernig vinna við innleiðingu á þriðja orkupakkanum gengur, þ.e. innleiðingin sem felur í sér þessar nýju valdheimildir bæði ESA og ASE, Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar í orkumálum. Ég spyr vegna þess að þetta er eitt helsta hitamálið á norska Stórþinginu um þessar mundir. Ég held að ég fari rétt með að þetta hafi verið sett í samninginn hjá okkur í fyrra með stjórnskipulegum fyrirvörum sem væntingar stóðu til að yrði búið að aflétta fyrir árslok. Ég ætla að nota tækifærið og forvitnast um það hjá hæstv. ráðherra — sem er horfinn.