148. löggjafarþing — 22. fundur,  6. feb. 2018.

tekjustofnar sveitarfélaga.

11. mál
[15:31]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég styð framgang þessa máls enda mjög sniðug leið til að nýta þann fasteignasjóð sem hefur myndast. Fyrir nefndina komu umsagnaraðilar sem lýstu aðeins fyrir okkur framkvæmd við sölu á fasteignunum þar sem því var lýst að þær hefðu í raun verið seldar undir virði og á lágum vöxtum; ellegar væri þessi fasteignasjóður mun stöndugri í dag en hann er núna ef betra verð hefði fengist fyrir fasteignirnar. Ég velti fyrir mér hvort það sé eitthvað sem þurfi að huga að, hvernig framkvæmd við sölu þessara fasteigna hefur verið í skilningi þess að fara vel með opinbert fé.