148. löggjafarþing — 22. fundur,  6. feb. 2018.

tekjustofnar sveitarfélaga.

11. mál
[15:32]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við málsmeðferð nefndarinnar kom það fram frá fulltrúum ráðuneytisins að ástand þessara fasteigna hefði verið mjög misjafnt. Þær hefðu margar þurft á miklu viðhaldi að halda. Það er litið svo á, ég túlka það alla vega þannig, að farin hafi verið þessi leið í því samkomulagi sem gert var milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og ríkisins við yfirfærslu þessa málaflokks. Þarna er um að ræða fasteignir og húsnæði sem mjög oft er sniðið að þörfum fatlaðs fólks. Því er kannski erfitt að gera sér grein fyrir hvert markaðsvirði beint er. En markmiðið var augljóslega að sem minnst röskun yrði á högum þess fólks sem þarna býr og á þarna heima og nýtur þeirrar þjónustu sem við sem samfélag veitum því.