148. löggjafarþing — 22. fundur,  6. feb. 2018.

tekjustofnar sveitarfélaga.

11. mál
[15:33]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Matið á verðmætum eignanna fór samt fram. Það kom fram að þær hefðu verið metnar á um 3,5 milljarða en söluandvirði hefði að lokum verið um 3 milljarðar. Það kom ekki greinilega fram hvort það var þá eftir á séð, að ástandið hefði verið verra eða eitthvað svoleiðis. Ég geri fastlega ráð fyrir að verðmætamat upp á 3,5 milljarða hafi verið nákvæmt, sér í lagi miðað við hvernig þróun fasteignaverðs hefur verið á undanförnum árum. Til viðbótar var þetta sala með 2% vöxtum sem að öllu jöfnu er ekki eitthvað sem almennt má ganga að í öðrum fjárfestingum á Íslandi. Þetta væri eitthvað sem ég væri alveg sáttur við að geta fengið, lán á þessum kjörum vegna minnar íbúðar. En ég velti því enn fyrir mér — miðað við verðmætamatið sem lá fyrir, miðað við upphæðina sem fékkst, miðað við vextina sem settir eru á þetta — hvort ekki væri eðlilegt að skoða aðeins betur hvort eitthvað mætti fara aðeins betur í framtíðinni.