148. löggjafarþing — 22. fundur,  6. feb. 2018.

tekjustofnar sveitarfélaga.

11. mál
[15:35]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er alveg viss um að hv. þm. Björn Leví Gunnarsson getur fengið allar upplýsingar um hvernig staðið var að þessari sölu, á hvaða verði einstakar fasteignir voru færðar yfir á sínum tíma. Það er auðvitað allt saman til á vettvangi ráðuneytisins. Ég ítreka það sem ég sagði hér áðan, hér var um samkomulagsatriði að ræða milli sveitarfélaganna í landinu og ríkisins þar sem sveitarfélögin tókust á hendur verkefni sem er gríðarlega mikilvægt í samfélagi okkar og við viljum inna vel af hendi. Það var örugglega haft til hliðsjónar að þetta gæti gerst með sem hagkvæmustum hætti fyrir alla aðila. Ég get alveg sagt það sem mína persónulegu skoðun að í málum sem þessum, þegar um er að ræða svona viðkvæman málaflokk, þar sem mikilvægt er að raska ekki ró þeirra sem þjónustunnar njóta, eins og í þessu tilfelli, finnst mér mjög eðlilegt að slíkt hafi verið gert með einhverju samkomulagi milli sveitarfélaga og ríkisins. Það gefur auga leið að ef farið hefði verið fram á markaðsforsendum í þessu viðkvæma máli og þessu tilfelli hefði það mögulega getað orðið til þess að ríkið hefði getað fengið eitthvað meira fyrir þessar eignir. En við getum líka séð fyrir okkur hvað það hefði flækt alla yfirfærslu málaflokksins og hvernig þetta hefði þá mögulega getað gengið fyrir sig og þá röskun sem hefði orðið á högum þess fólks sem hér á sitt undir. Að því leyti hef ég engar efasemdir um að hér hafi verið vel að verki staðið, ágreiningur er heldur enginn um þetta í kerfinu. Rödd hv. þm. Björns Leví Gunnarssonar er sú eina sem ég hef heyrt sem dregur eitthvað í efa að hér hafi verið rétt að málum staðið.