148. löggjafarþing — 22. fundur,  6. feb. 2018.

tekjustofnar sveitarfélaga.

11. mál
[15:37]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil koma upp til að fagna því að þetta mál sé komið á þennan stað og við skulum vera komin vel á veg með það. Hér er verið að breyta ákvæðum um fasteignasjóð Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í lögum um tekjustofna sveitarfélaga sem miða að því að fela fasteignasjóði varanlegt hlutverk og jöfnun aðstöðu sveitarfélaga við uppbyggingu fasteigna sem nýttar eru í þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir, eins og fram hefur komið. Þetta er gríðarlega viðkvæmur, viðamikill og dýrmætur þáttur í samfélagi okkar sem við þurfum að standa vel að. Ég held að menn hafi gert það í þessari vinnu.

Verið er að færa starfsemi fasteignasjóðs frá því að leigja og selja fasteignir sem ríkið hefur áður nýtt í þjónustu við fatlað fólk yfir í að jafna með fjárframlögum aðstöðu sveitarfélaganna við uppbyggingu fasteigna sem nýta á í þjónustu við fatlað fólk með miklar og/eða sértækar stuðningsþarfir. Með því að samþykkja þetta frumvarp tel ég að það muni hafa jákvæð áhrif á uppbyggingu sveitarfélaga á húsnæðisúrræðum til þjónustu við fatlað fólk með miklar og sértækar stuðningsþarfir. Ég tek undir allt sem hefur fram komið varðandi það. Okkur veitir ekki af að styrkja tekjustofna sveitarfélaganna og styrkja þau í því hlutverki sem þeim er ætlað. Það hefur mikil yfirfærsla á verkefnum verið til sveitarfélaga en fjármögnunin ekki alltaf fylgt, eins og dæmin sanna. Þetta hlýtur að vera góður liður í því.

Ef maður les umsagnirnar í málinu á fyrri stigum er mjög mikil jákvæðni gagnvart því. Það hefur líka komið fram að staðan hefur því miður verið þannig í mörgum sveitarfélögum að mikilvæg verkefni hafa ekki komist áfram eða komist af stað vegna þess að fjármögnun hefur ekki verið næg. Ef þetta verður til þess að bæta úr þeirri stöðu og við getum hlúð betur að þeim sem þetta þurfa að nýta er það mikið fagnaðarefni. Ég fagna því að þetta sé fram komið.