Bráðabirgðaútgáfa.

148. löggjafarþing — 22. fundur,  6. feb. 2018.

íslenskur ríkisborgararéttur og barnalög.

133. mál
[16:13]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef hug á því að spyrja hæstv. ráðherra sérstaklega út í 6. gr. frumvarpsins, um lengd búsetutíma. Við gerum kröfu um fimm ára búsetutíma fyrir ríkisfangslausa einstaklinga sem hingað koma. Það er, eins fram kom í máli ráðherra, sami frestur og flóttamenn hafa, þ.e. sami tími sem þarf að líða hjá flóttamönnum þar til þeir geta sótt um íslenskan ríkisborgararétt. Ég spyr, í ljósi þess að við erum að reyna að vinna gegn ríkisfangsleysi, hvort ekki hafi komið til álita að stytta þann tíma og hafa hann jafnvel þrjú ár, eins og á við um börn. Ríkisfangsleysi er mjög alvarlegt ástand sem mér finnst að við ættum að vera fljótari að bæta úr.

Svo langaði mig að spyrja varðandi regluna um að börn sem fæðast hér á landi ríkisfangslaus þurfi að búa hér í þrjú ár til að fá íslenskt ríkisfang. Hvers vegna var ákveðið að fara þá leið þar sem samningur Sameinuðu þjóðanna um að draga úr ríkisfangsleysi gerir ráð fyrir mun einfaldari leið að ríkisfang verði veitt við fæðingu? Það var lagt til síðast og ég sé að ekki hefur verið tekið tillit til þess, þ.e. að í stað þess að láta barn bíða í þrjú ár verði ríkisfang einfaldlega veitt við fæðingu. Mig langar að spyrja hvers vegna ákveðið hafi verið að hafa þann tíma fimm ár fyrir fullorðna sem eru án ríkisfangs og þrjú ár fyrir börn sem fæðast hér ríkisfangslaus. Finnst ráðherra tilefni til þess að stytta þann frest með tilliti til alvarleika þess að vera ríkisfangslaus?