Bráðabirgðaútgáfa.

148. löggjafarþing — 22. fundur,  6. feb. 2018.

íslenskur ríkisborgararéttur og barnalög.

133. mál
[16:15]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hvað varðar 6. gr. frumvarpsins sem lýtur að umsækjanda sem telst vera ríkisfangslaus samkvæmt ákvæðum laga, að hann þurfi að hafa verið hér búsettur í fimm ár, þá kemur það einmitt fram í athugasemdum við þá grein að það er í samræmi við tilmæli Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um að draga úr ríkisfangsleysi. Hvað tímamörkin varðar er lagt til að þetta sé óbreytt, að fimm ára búseta geti verið grundvöllur að ríkisfangi. Það fullnægir skilgreiningum í alþjóðasamningi um stöðu flóttamanna sem áður er nefndur.

Ég hvet hv. allsherjar- og menntamálanefnd til að ræða það sérstaklega í vinnu sinni. Ég vonast til að veittar verði umsagnir um frumvarpið eins og það er núna. En eins og ég nefndi reyndar í fyrra andsvari við annan hv. þingmann hefur verið tekið tillit til velflestra þeirra ábendinga sem fram komu í umsögnum um málið á fyrri þingum. Það er sjálfsagt að ræða frekar. Það sama á við um þriggja ára frestinn sem á við um börn sem fæðast hér ríkisfangslaus. Ég árétta það sem ég sagði áðan, það er afar sjaldgæft yfir höfuð að hingað leiti fólk sem er ríkisfangslaust. En því getur farið fjölgandi núna með auknum flóttamannastraumi. Ég árétta líka að við verðum að hafa í huga að menn eru ekki endilega ríkisfangslausir þótt þeir hafi ekki pappíra eða skilríki sem sanna hvaðan þeir koma. Þá eru menn ekki endilega ríkisfangslausir. En ég vona að allir þessir frestir verði til umræðu hjá hv. nefnd.