Bráðabirgðaútgáfa.

148. löggjafarþing — 22. fundur,  6. feb. 2018.

íslenskur ríkisborgararéttur og barnalög.

133. mál
[16:18]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég spyr hæstv. ráðherra einmitt um þessar ábendingar. Ef ég man rétt var ein af ábendingunum síðast sú að það vantaði almennilega skilgreiningu á því hvað teldist vera ríkisfangsleysi í íslenskum rétti. Það er m.a. sú afstaða að viðkomandi búi við það ástand að ekkert aðildarríkjanna viðurkenni viðkomandi sem ríkisborgara síns lands. Ég sé fyrir mér atvik þar sem börn fæðast hjá flóttamönnum, hælisleitendum hér á landi, sem geta ekki orðið sér úti um pappíra en þeir geta heldur ekki fengið viðurkenningu á þjóðerni sínu vegna þess að þeir eru flóttamenn frá sínu eigin landi.

Ég spyr hæstv. dómsmálaráðherra: Hver tók þá ákvörðun í dómsmálaráðuneytinu að fara þessa leið? Var það hæstv. ráðherra sem hér stendur eða annar ráðherra?

Svo langaði mig að spyrja hvort hæstv. ráðherra finnist nóg að gert hvað varðar ábendingar um að skýra skilgreiningu vanti á því hvað ríkisfangsleysi þýðir yfir höfuð til þess að hægt sé að framfylgja þessum lögum með viðeigandi hætti. Hver ákvað að fara ekki að þeim ábendingum að tryggja það betur að það sé mjög skýrt í lögunum hvernig ríkisfangsleysi er skilgreint hér á landi?