Bráðabirgðaútgáfa.

148. löggjafarþing — 22. fundur,  6. feb. 2018.

íslenskur ríkisborgararéttur og barnalög.

133. mál
[16:20]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Skilgreining á ríkisfangsleysi hefur ekki verið nokkurt vandamál við afgreiðslu mála hér og er stuðst við alþjóðaviðmið í þeim efnum. Ég veit ekki betur en að það vanti enga lagastoð eða lagagrundvöll fyrir ákvörðunum sem teknar eru á grundvelli ríkisfangsleysis í íslenskum lögum.

Frumvarp þetta er unnið, eins og því er lýst hérna, í samráði við marga aðila, eins og ég kom inn á í fyrra andsvari mínu, og hefur legið frammi til kynningar þess utan. Öllum mun gefast tækifæri til að veita umsögn um þetta frumvarp. Þingmenn sjálfir hafa alla möguleika á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Ég efast ekki um að þeir muni gera það og almenningur allur. Frumvarpið liggur fyrir, það mun liggja fyrir á heimasíðu Alþingis og það hefur reyndar legið fyrir til kynningar á heimasíðu dómsmálaráðuneytisins. Óskað verður sérstaklega eftir umsögnum frá sérstökum aðilum sem best þekkja til í þessum málaflokki. Ég held að hv. þingmaður ætti að geyma efasemdir sínar eða dylgjur um einhvers konar ómálefnaleg sjónarmið við vinnu þessa frumvarps sem margir sérfræðingar hafa lagt mikla vinnu í, þar til frumvarpið kemur til atkvæðagreiðslu.