148. löggjafarþing — 23. fundur,  7. feb. 2018.

störf þingsins.

[15:01]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ímyndið ykkur að ykkur hefði verið nauðgað eða að barninu ykkar hefði verið nauðgað og það er réttaróvissa um hvort dómur yfir nauðgaranum haldi eða verði gerður ómerkur.

Allir dómar fjögurra dómara við Landsrétt gætu verið gerðir ómerkir vegna ólögmætra skipana. Ekki er deilt um þetta. Hæstiréttur dæmdi raunverulega í desember að dómsmálaráðherra hefði brotið lög við skipun dómara. Dómsmálaráðherra er ósammála dóminum en dómurinn féll samt sem áður.

Evrópudómstóllinn dæmdi í lok janúar að ólögmætar skipanir dómara ómerktu alla þeirra dóma. Þetta var dæmt. Hvers vegna? Vegna þess að allir eiga rétt á að koma fyrir óvilhalla, óháða og sjálfstæða dómstóla. En nú í febrúar, í Kveik, hefur dómsmálaráðherra sagt að dómarar sem hún skipaði gætu staðið í þakkarskuld við sig. Þá gætu þeir verið vilhallir og háðir ráðherra. Það er brot á stjórnarskránni okkar, brot á Evrópusáttmála Evrópu sem var dæmt út frá í Evrópuréttinum um að dómar slíkra dómara séu ómerkir. Þess vegna skiptir þetta máli.

Horfum á raunveruleikann í stöðunni. Dæmi um dóma sem hafa fallið eftir 1. janúar og er því hægt að áfrýja til Landsréttar eru:

Ákærði dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir að brjóta ítrekað um tveggja ára skeið gegn 11 ára sonardóttur sinni. Verður þetta mál ómerkt?

Ákærði dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir nauðgun og kynferðisbrot gegn fimm ára dóttur sinni. Verður þetta mál gert ómerkt?

Ákærði dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir nauðgun. Verður það gert ómerkt? (Forseti hringir.)

Ákærði dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi fyrir tilraun til manndráps.

Þetta er alvara málsins. Það er réttaróvissa í landinu. Þetta fólk, þessir þolendur upplifa réttaróvissuna sem og við öll.