148. löggjafarþing — 23. fundur,  7. feb. 2018.

störf þingsins.

[15:03]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Enn og aftur kemur því miður í ljós hversu algeng kynferðisbrot eru í samfélaginu. Ég hef lengi sýnt þessari baráttu mikinn áhuga sem leiddi m.a. til þess að alvarleg kynferðisbrot gegn börnum fyrnast ekki lengur á Íslandi. Nú hafa stjórnvöld nýverið kynnt átak gegn kynferðisbrotum, sem er vel. Hins vegar hefur verið gagnrýnt að ekki sé hugað nægilega vel að meðferðarúrræðum fyrir gerendur og auknum forvörnum.

Fyrir fimm árum var ég formaður starfshóps sem skilaði margþættum tillögum um þessi mál. Eitt af því síðasta sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur gerði árið 2013 var að fylgja eftir sumum af þessum tillögum, m.a. undirbúningi að kaupum á nýju Barnahúsi. Þá náðu einnig í gegn tillögur okkar um fjölgun starfsfólks í Barnahúsi og fjölgun lögreglumanna og saksóknara.

Sumar tillagnanna hafa hins vegar ekki enn náð í gegn. Við lögðum til að sett yrði á fót teymi sérfræðinga sem starfi við forvarnir og að hið opinbera byði fram þjónustu fyrir einstaklinga með barnagirnd. Var þá hugsunin ekki síst sú að hægt væri að ná í þá einstaklinga sem ekki hafa enn brotið af sér en eru hugsanlega í þeim hugleiðingum. Þá voru tillögur lagðar fram um gerð áhættumats á dæmdum kynferðisbrotamönnum og að farið yrði yfir löggjöfina sem fjallar um hverjir megi þjónusta börn og sinna umönnun þeirra. Við lögðum líka til aukinn stuðning gagnvart aðstandendum brotaþola og fyrir fullorðna brotaþola ásamt bættri sálgæslu lögreglumanna og fjölgun sálfræðinga og félagsfræðinga innan fangelsa.

Ég vil hvetja núverandi stjórnvöld til að fara vel yfir þessar tillögur okkar en margar þeirra eiga enn brýnt erindi og myndu bæta stöðuna talsvert.

Herra forseti. Fá mál eru jafn brýn.