148. löggjafarþing — 23. fundur,  7. feb. 2018.

störf þingsins.

[15:08]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Á fund velferðarnefndar í morgun komu fulltrúar frá landlækni og Frú Ragnheiði. Ræddar voru þær hryllilegu fréttir sem berast um dauðsföll vegna lyfjaneyslu í landinu. Hér deyja tugir manna á ári vegna ofneyslu læknadóps og annarra lyfja. Kom fram að Íslendingar nota 38% meira af geðlyfjum en Norðurlöndin. Við erum langhæstu notendurnir innan OECD. Við notum langmest af svefnlyfjum og róandi lyfjum, hér er tvöfalt meiri notkun örvandi lyfja miðað við önnur Norðurlönd og fleiri ávísanir eru á verkjalyf en í nokkrum öðrum löndum. Það er undanfari frekari neyslu sterkra vímuefna.

Vegna Evrópusamstarfsins geta spænskir læknar ávísað vanabindandi lyfjum fyrir sjúklinga.

Við fengum áhugaverða kynningu á starfsemi Frú Ragnheiðar um skaðaminnkandi aðgerðir fyrir neytendur. Hér er kolsvartur eiturlyfjamarkaður í landinu. Fullfrískir menn fá lyf hjá læknum sem þeir nota sem gjaldmiðil til að kaupa vændi af fárveikum fíklum í nágrenni við okkur. Við verðum að ráðast gegn því myrkri sem hvílir hér yfir. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Gegn þessu myrkri þar sem eiturlyfin eru seld á svörtum markaði og fólk er neytt til samlífs. Rótin að vandamálinu er líka að Persónuvernd bannar öll samskipti lækna og hjúkrunarfræðinga um upplýsingar og við þurfum að koma þeim girðingum líka niður. Við þurfum líka að hjálpa samtökum sem vinna að vímuefnamálum, SÁÁ, Hlaðgerðarkoti og Krýsuvík. Þetta eru verkefni okkar allra í þessum sal. Við skulum vinna að því að blása burt myrkrinu.