148. löggjafarþing — 23. fundur,  7. feb. 2018.

störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Í gær komu fulltrúar Samtaka iðnaðarins á fund umhverfis- og samgöngunefndar og ræddu skýrslu samtakanna um innviði á Íslandi sem kom út í október 2017. Í skýrslunni er gerð grein fyrir viðamikilli úttekt á ástandi innviða og þar er skýrt dregið fram að mikil þörf er fyrir viðhald og frekari uppbyggingu. Þar er vegakerfið í landinu hvað verst statt og það er ástand sem kallar á viðbrögð.

Það kemur m.a. fram að 5.600 kílómetrar af þjóðvegum í umsjón Vegagerðarinnar eru lagðir bundnu slitlagi, en malarvegir eru mun lengri hluti þjóðveganna, 7.300 kílómetrar. Við vitum að um þessa malarvegi ferðast börn og fullorðnir alla daga til skóla og vinnu. Þá eru dæmi um malarvegi þar sem dagsumferð allt sumarið mælist í nokkrum hundruðum bíla og því í raun ómögulegt að halda vegunum þokkalega akfærum frá degi til dags. Auk þjóðveganna eru í landinu 12.000 kílómetrar af sveitarfélagavegum sem að stærstum hluta eru malarvegir. Þá er allt annað ótalið.

Fjárfesting í innviðum er undirstaða hagvaxtar og uppbygging vega víða um land grunnur að nýsköpun og nýtingu auðlinda. Þjóð sem býr í jafn dreifbýlu landi og Ísland er verður að nota hærra hlutfall þjóðartekna í samgöngur en gert hefur verið síðustu árin. Það er bráðnauðsynlegt að byggja upp samgöngumannvirki til að viðhalda samkeppnishæfni jafnt einstakra landshluta sem landsins í heild. Þá er nauðsyn að á hverjum tíma liggi fyrir samgönguáætlun og fjármálaáætlun sem samræmi er í.

Núna er mikilvægt að slakinn sem reiknað er með að myndist í hagkerfinu á næstu misserum verði nýttur til að byggja upp vegi og aðra innviði. Þannig má líka draga úr niðursveiflunni og byggja undir stoðir hagvaxtar til lengri tíma.