148. löggjafarþing — 23. fundur,  7. feb. 2018.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Það var eitt og annað sem maður lærði á síðasta ári og tók með sér í reynslubankann. Sumt af því er maður raunverulega að reyna að melta. Eitt af því tengist málefnum fólks sem er í vandræðum vegna ríkisborgararéttar en þá er ekki miklu frumkvæði fyrir að fara af hálfu hæstv. dómsmálaráðherra. Þess vegna er mikilvægt að þingið taki ákveðið málefni til sín varðandi ríkisborgararéttinn og fari mjög vel yfir þau öll.

Ég veit að þingmenn hafa fengið póst eins og ég varðandi tiltekinn einstakling, Eggert Einer Nielson, sem er Íslendingur, að mínu mati, er fæddur hér, hefur lagt sitt af mörkum til að byggja upp einstakt vestfirskt samfélag, hefur starfað hjá Súðavíkurhreppi, sér um skólaakstur, tónlistarkennslu o.s.frv.; eitthvað sem við viljum einmitt að einstaklingar, fjölskyldur, geti gert sem búa hér á Íslandi hvaðan sem þær koma, að taka þátt í samfélaginu. Þá er eitthvað að þegar við erum búin að byggja upp kerfi sem segir bara: Computer says no. Og ýtum fólki sjálfkrafa út.

Ég fagna því sérstaklega að formaður allsherjar- og menntamálanefndar hefur mjög einarðlega tekið af skarið og í raun skorið hæstv. dómsmálaráðherra niður úr snörunni. Eins og ég segi, að fenginni reynslu, hefði frumkvæðið ekki komið þaðan. Þetta er núna þingsins. Þess vegna tel ég mikilvægara en áður að við förum að skapa skýrar reglur um einfalt kerfi, mannúðlegra kerfi, þegar kemur að veitingu ríkisborgararéttar. Við á þinginu megum heldur ekki falla í þann pytt sem heitir hentistefna. Við verðum að hafa reglurnar gegnsæjar, aðgengilegar og mannúðlegar þannig að við flæmum ekki burt fólk sem við sjáum mikla kosti í taki þátt í íslensku samfélagi. Ábyrgðin er okkar allra. Höfum faðminn opinn, ekki lokaðan. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)