148. löggjafarþing — 23. fundur,  7. feb. 2018.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Í stefnuskrá ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, hæstv. forsætisráðherra, er kafli sem ber yfirskriftina Evrópa og viðskiptakjör sem er í sjálfu sér nokkuð merkileg yfirskrift á þeim kafla. Þar segir, með leyfi forseta:

„Hagsmunum Íslands er best borgið með því að standa áfram utan Evrópusambandsins. Ríkisstjórnin telur það vera eitt mikilvægasta hagsmunamál Íslands að sinna framkvæmd EES-samningsins vel og Alþingi þarf að vera virkara á því sviði.“

Svo mörg eru þau orð um samskipti Íslands og Evrópusambandsins og EES-samninginn, fyrir utan mikilvægi Brexit-mála fyrir íslenska hagsmuni, sem er sérstakt áhugamál ríkisstjórnarinnar að því er virðist.

Í umræðum í þinginu í gær lét hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson þessi ummæli falla um Evrópusambandið, EES-samninginn og EFTA-ríkin sem ég tel harla merkileg og ástæðu til að vekja sérstaka athygli á. Þau féllu í tengslum við umræðu um tveggja stoða uppbyggingu samstarfsins, með leyfi forseta:

„Þegar Evrópusambandið er farið að þrýsta á í hverju málinu á fætur öðru að vikið sé frá þeirri grundvallarreglu sé ég ekki betur en að við séum í stöðu til að segja: Heyrðu, þetta er ekki partur af samningnum, ekki hluti hans. Það er ekki hægt að fara fram á þetta undir fána EES-samstarfsins. Þarna held ég að við þurfum að gaumgæfa betur rétt okkar og stöðu gagnvart Evrópusambandinu vegna þess að sú vél er með mjög mikinn skriðþunga og veltur áfram á móti hvers kyns mótbárum. Og já, stundum kemur fyrir að samstarfsríki okkar hafa gefið eftir.“

Hér sýnist mér sem hæstv. fjármálaráðherra sé að undirbúa jarðveginn fyrir að gera EES-samstarfið tortryggilegt og beina samskiptum Íslands og Evrópusambandsins í tvíhliða samskipti. Það er mjög alvarleg þróun sem ég vara eindregið við.