148. löggjafarþing — 23. fundur,  7. feb. 2018.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil taka til umræðu mál sem brennur á fólki víða um land og ekki síst í mínu kjördæmi. Það er ekki málefni löggæslu eða Herjólfs, eins og einhver gæti kannski búist við, heldur eru það loðnuveiðar, vegna þess að nýjustu fréttir herma að Hafrannsóknastofnun hyggist senda út skip til loðnuleitar úti fyrir Vestfjörðum og leita þar og austur um að Kolbeinseyjarhrygg. Vil ég sérstaklega fagna, sem er kannski ekki algengt í ræðustól Alþingis, þeirri ákvörðun Hafrannsóknastofnunar sem var alls ekki sjálfgefin.

Seint verður það brýnt nægilega að við sem sjávarútvegsþjóð sinnum grunnrannsóknum með fullnægjandi hætti á auðlindinni okkar, sjávarútvegsauðlindinni. Þannig er ljóst að loðnuveiðar og vinnsla skiptir afar miklu máli fyrir margar sjávarbyggðir landsins enda er um mikil verðmæti að tefla, bæði framleiðsla á mjöli og lýsi, en einnig til frystingar og hrognatöku afurðanna sem eykur verðmæti þeirra verulega.

Þetta skiptir ekki bara sjávarbyggðirnar máli heldur einnig ríkissjóð. Gera má ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs verði um 5–10 milljarðar á yfirstandandi loðnuvertíð ef kvótinn helst óbreyttur.

Heildaraflamark á loðnuvertíðinni sem nú er hafin var ákveðið 285 þús. tonn, en þegar þetta er sagt er rétt að hafa í huga að af þeim kvóta fá Norðmenn fyrstu u.þ.b. 30 þús. tonnin og síðan taka Grænlendingar og Færeyingar um 50 þús. tonn, þannig að kvóti okkar Íslendinga í loðnukvótanum, eins og hann er núna ákveðinn, er um 200 þús. tonn.

Ég fagna leiðangri Hafrannsóknastofnunar sérstaklega hér í ræðustóli Alþingis og tel hann skipta miklu máli.