148. löggjafarþing — 23. fundur,  7. feb. 2018.

almannatryggingar.

38. mál
[15:57]
Horfa

Flm. (Halldóra Mogensen) (P):

Forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, því sem snýr að frítekjumarki vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar.

Þetta frumvarp hefur það markmið að festa varanlega í sessi frítekjumörk örorkulífeyrisþega vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar. Meðal þeirra greiðslna sem örorkulífeyrisþegar hljóta er svonefnd tekjutrygging, en tekjutrygging er form greiðslna sem skal greiða þegar tekjur lífeyrisþega eru undir ákveðnu marki, svonefndu frítekjumarki. Við ákvörðun á því hvort einstaklingur eigi rétt á tekjutryggingu er litið til allra tekna hans að undanskildum greiðslum frá Tryggingastofnun, húsaleigubótum og fjárhagsaðstoð sveitarfélaga.

Samkvæmt núgildandi lögum um almannatryggingar skerðast tekjur lífeyrisþega af atvinnu þegar tekjurnar eru yfir frítekjumarkinu. Í núgildandi lögum er frítekjumark tilgreint sem 300.000 kr. á ári, þ.e. 25.000 kr. á mánuði. Það er upphæð sem er kallað grunnupphæð frítekjumarks, en undanfarin ár hefur hækkun frítekjumarks verið haldið við með setningu bráðabirgðaákvæða. Raunverulegt frítekjumark hefur frá 2009 verið 1.315.200 kr. á ári, en sú fjárhæð hefur verið endurnýjuð árlega með setningu nýs bráðabirgðaákvæðis.

Það ástand sem ríkir í dag er þannig að venja hefur myndast fyrir því á hverju ári að með misjafnan tíma til stefnu til áramóta er samþykkt framlenging á þessu bráðabirgðaákvæði sem kemur í veg fyrir að frítekjumark lækki úr því sem það er nú, en það eru 109.600 kr. á mánuði í 25.000 kr. á mánuði. Með því eru öryrkjar settir í þá stöðu að vera í algjörri óvissu um hverjar tekjur þeirra kunni að vera nokkrar vikur eða daga fram í tímann. Þessari framkvæmd fylgir gríðarleg óvissa og óöryggi. Margir öryrkjar hafa lýst því að framkvæmdin valdi þeim miklum kvíða. Það er skylda okkar hér að binda enda á óvissu og tryggja öryrkjum fyrirsjáanleika í tekjum sínum.

Með frumvarpinu er lagt til að grunnupphæð frítekjumarks vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar í b-lið 2. mgr. 16. gr. breytist úr 300.000 kr. í 1.315.200 kr. og öryrkjum verði þannig tryggt varanlega það frítekjumark sem þeir hafa búið við undanfarin ár.

Forseti. Þetta frumvarp er einfalt og ætti ekki að vera neinn ágreiningur um það í þingheimi, ég vona ekki. Sú réttarbót öryrkja sem er lögð til er ekkert minna en sjálfsögð. Við erum einungis að festa í sessi það sem er gert með bráðabirgðaákvæði á ári hverju og þar með eyða óvissu og óöryggi.

Að lokum skal nefnt að þetta frumvarp var lagt fram á síðasta ári. Því miðast gildistaka þess við 1. janúar þessa árs. Ég mun því leggja til að sú dagsetning verði uppfærð í 1. janúar 2019 við meðferð málsins í nefndinni.