148. löggjafarþing — 23. fundur,  7. feb. 2018.

almannatryggingar.

38. mál
[16:00]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. flutningsmanni og meðflutningsmönnum hennar fyrir frumvarpið. Ég leyfi mér að taka undir lokaorð í framsöguræðu flutningsmanns. Þetta er ákaflega einfalt mál. Þetta er í raun og sanni sjálfsagt réttlætismál. Það er oft talað um það í sambandi við atvinnurekstur að fyrirtæki þurfi að geta búið við fyrirsjáanleika. Það er mjög skiljanlegt og eðlilegt sjónarmið og hefur oft afar mikið vægi í umræðum í atvinnumálum. Hér er talað um fyrirsjáanleika og öryggi sem snýr að fólki sem er í þeirri stöðu sem þetta frumvarp fjallar um. Það er auðvitað alveg sjálfsagt mál að það búi við öryggi og fyrirsjáanleika sem hægt er að tryggja eins og með því sem hér er lagt til, að gera varanlegt það sem áður hafa verið teknar ákvarðanir um frá ári til árs. Ég leyfi mér að vænta þess að þetta sjálfsagða réttlætismál fái greiða leið í gegnum þingið.