148. löggjafarþing — 23. fundur,  7. feb. 2018.

almannatryggingar og félagsleg aðstoð.

39. mál
[16:15]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Aftur færi ég hv. framsögumanni og fyrsta flytjanda þessa máls og meðflytjendum hennar þakkir.

Það er meginregla í íslensku samfélagi, og hún er venju helguð í gegnum rás aldanna, herra forseti, að Íslendingar hafa tekið það ráð til þess að bæta hag sinn að auka vinnu. Í kringum þau bótakerfi sem hafa verið sett upp hefur hins vegar verið þróað fyrirkomulag sem gengur gegn þeirri meginreglu. Það lýsir sér í skerðingum sem eru ítrekað til umfjöllunar og menn þekkja það svo sem að orðunum aldraðir og öryrkjar fylgir oft orðið skerðingar. Með frumvarpinu er leitast við að vinna gegn því.

Sú skerðingarárátta hefur kannski náð hámarki sínu í því hugtaki sem kemur fyrir í greinargerð og það er með hinni svokölluðu krónu á móti krónu skerðingu. Ef menn vilja taka þetta enn þá lengra, eins og síðasti ræðumaður, hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson vék að, gæti jafnvel farið svo í því skerðingarkerfi öllu saman að menn yrðu af tekjum fyrir það og skertu hag sinn með því að auka vinnu. Það sjá náttúrlega allir menn að nær engri átt.

Auðvitað ber að haga allri uppbyggingu bótakerfa og þeirra úrræða sem hið opinbera hefur til að styðja við bakið á þeim sem falla undir þau kerfi, þannig að þeir hafi hvata sem hafa vilja og getu til þess að fara út á vinnumarkaðinn með öllum þeim ávinningi sem það hefur fyrir einstaklinginn og fyrir ríkissjóð af auknum skatttekjum. Slík kerfi eiga að sjálfsögðu að fela í sér hvatningu frekar en að letja til slíks.

Reyndar er það svo að við komum ítrekað að því í umræðum um mál af þessu tagi að hinn metni fjárhagslegi kostnaður við umbætur í þessu er jafnan gefinn upp sem ein tala sem sjaldnast felur í sér að tekið er tillit til þeirra áhrifa fyrir ríkissjóð að fólk fari út að vinna. Við höfum til að mynda rekist á þetta í umræðum um það mál sem við í Flokki fólksins og fleiri hafa beitt sér fyrir, varðandi að fella brott frítekjumarkið. Þar er jafnan gefin upp tala um kostnað fyrir ríkissjóð án þess að minnsta tillit sé tekið til þess fjárhagslega ávinnings sem aukin atvinnuþátttaka leiðir af sér.

Ég tel að hér sé um réttlætismál að ræða og leyfi mér að láta í ljósi þá von og ósk að þetta frumvarp fái þann stuðning á Alþingi, herra forseti, sem það verðskuldar.