148. löggjafarþing — 23. fundur,  7. feb. 2018.

samræming verklags um fjarfundi á vegum ráðuneyta.

45. mál
[16:26]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að þessi tillaga er komin fram, er reyndar einn af flutningsmönnum hennar ásamt hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur. Ég hef unnið töluvert við að sinna læknisþjónustu og vera á fundum með fjarfundabúnaði og skil þess vegna mjög vel mikilvægi þessarar tækni.

Mig langar samt að inna flutningsmanninn eftir einu, því að fljótt á litið sé ég ekki að það komi fram í greinargerðinni: Ríkið gengur dálítið út á debet og kredit, eins og margir hér inni kannast við, þannig að ég spyr hvort þingmaðurinn hafi velt fyrir sér hve mikið sparast á þessu, hver mögulegur sparnaður gæti orðið, og hvort það ætti þá kannski ekki að vera hluti af vinnunni í kringum tillöguna. Á hinum vængnum er þá kreditið: Hvað er líklegt að innleiðing með þessum hætti gæti kostað? Því að á enda ríkisins er það alltaf fyrsta spurningin.