148. löggjafarþing — 23. fundur,  7. feb. 2018.

samræming verklags um fjarfundi á vegum ráðuneyta.

45. mál
[16:28]
Horfa

Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni fyrir gott andsvar. Þingmaðurinn er ekki í aðstöðu til að gera nákvæmar kostnaðaráætlanir, hvorki um debet né kredit. En ef maður veltir því fyrir sér hvað gæti þá mögulega sparast: Ég get ekki talið það í krónum en bara ímyndað mér að þetta sé ansi drjúgt fyrir stofnanir og sveitarstjórnir, og einstaklingana sem sinna sveitarstjórnarstörfum, sem hv. þingmaður veit að eru nú ekki neitt sérstaklega hátt launuð. Menn þurfa að taka sér frí úr vinnu, það er töluverður ferðakostnaður, jafnvel gisting á höfuðborgarsvæðinu. Veður eru alla vega. Menn geta orðið strandaglópar. Þetta er mjög kostnaðarsamt, en krónutölurnar hef ég ekki.

Varðandi kostnaðinn við að innleiða þetta kerfi geri ég ráð fyrir að starfshópurinn sem yrði skipaður muni taka það til nákvæmrar skoðunar. Annað er að sum ráðuneytin eru með ágætan tækjabúnað nú þegar. Það sem vantar upp á er að starfsfólkið sé þjálfað og kunni á hann. Þar er í raun búið að leggja út kostnað en ekki hægt að nota. Það er náttúrlega bara sóun.