148. löggjafarþing — 23. fundur,  7. feb. 2018.

samræming verklags um fjarfundi á vegum ráðuneyta.

45. mál
[16:29]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Ég get, eins og hv. þingmaður nefndi, ímyndað mér að þarna geti verið umtalsverðar fjárhæðir. Og ekki bara það heldur er líka mikill samfélagslegur virðisauki í því að helmingurinn af stjórnsýslunni í sveitarfélaginu sé ekki alltaf á ferðalögum eða að þvælast á milli staða — að allt annað sé ómögulegt vegna þess að allt gerist hér á suðvesturhorninu. Það er mjög mikilvægt.

Mig langaði í seinna andsvarinu að kasta fram spurningu sem er kannski ómögulegt að svara. Ég vona að mér verði þá virt til vorkunnar að ég þekki ekki nægilega mikið inn á tækninúansana í því, en ég spyr hvort þingmönnunum sé kunnugt um að í einhverjum tilteknum aðstæðum þar sem fjarfundabúnaður er notaður þurfi til dæmis að viðhafa hærri öryggiskröfur á samskiptunum og þess háttar; hvort það geti gert að verkum að það verði fleiri en ein tegund af öryggisstigi, skulum við segja, á þessu.

Nú veit ég að ég er farinn að hljóma eins og sumir aðrir þingflokkar hér á þinginu þegar kemur að svona pælingum, en það er ekki tilviljun að ég spyr um þetta. Þessar spurningar hafa komið upp, sérstaklega þar sem menn hafa verið að velta því fyrir sér að taka þetta upp í sambandi við heilbrigðisþjónustu.