148. löggjafarþing — 23. fundur,  7. feb. 2018.

samræming verklags um fjarfundi á vegum ráðuneyta.

45. mál
[16:32]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. flutningsmanni, hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur, fyrir að hafa unnið að þessari þingsályktunartillögu. Mér finnst málið mjög gott, það er raunverulega mikilvægt. Þó að þetta sé ekki endilega stærsta málið í þinginu er þetta mikilvægt mál vegna þess að það snýst um betra aðgengi almennings og landsbyggðarinnar að stjórnsýslunni í Reykjavík og hvernig hún hefur verið byggð upp. Þess vegna er málið mikilvægt.

Þegar ég var í sveitarstjórnarmálum og var að reka ýmis erindi hér og þar, var alltaf krafa um að við kæmum suður í ráðuneytin og færum yfir málin. Þetta voru mislangir fundir, þetta var dýrt, tók mikinn tíma og oft fannst manni ekki nægilega vel farið með tímann. Þannig eru sveitarstjórnarmálin, þar eru stofnanir ríkisins og ýmis fyrirtæki sem, eins og fram kemur í greinargerðinni. Við þurfum að sækja þjónustu og þarna er raunverulega aðgengi að framkvæmdarvaldinu. Þess vegna er það mikilvægt.

Mér finnst að útfæra mætti svona hugmynd betur og vinna eftir einhverjum stöðlum því að þetta varðar ekki endilega bara framkvæmdarvaldið og ráðuneytin. Þarna er líka nefndasvið Alþingis, þingnefndir og aðgengi að þeim. Ég þekki það sjálfur að það er ekki sama aðgengi og það er dýrt. Oft þarf maður að bera sjálfur kostnaðinn af því að koma fyrir þingnefnd, þannig að þetta leynir á sér. Ef þessi þingsályktunartillaga verður samþykkt vildi ég að tekin yrðu upp árangursríkari og markvissari vinnubrögð sem snúa að því að staðla hvernig staðið er að þessum málefnum í ráðuneytunum.

Ég hef heyrt töluverða umræðu um að ráðuneytin séu ekki vel sett í þessum málum. Það er oft erfitt að koma á slíkum fundum í gegnum fjarfundabúnað og oft endar það bara í símanum, eins og fram kom hjá flutningsmanni áðan. Þetta mál snýr því að miklu leyti um betra og almennara aðgengi að stjórnsýslunni og stofnunum ríkisins vítt og breitt um landið. Ég held að það gæti orðið gríðarlegur sparnaður í kerfinu með því að efla það. Ég hef á síðustu árum fylgst með Háskólanum á Akureyri, hvernig þau hafa staðið að málum þar varðandi þetta, og ég get ekki séð betur en þau séu komin einna lengst í því ferli að koma á fjarfundabúnaði.

Fyrir um tveimur til þremur árum síðan fór ég að fylgjast með eins konar fundarvélmennum í netheimum. Þau kosta kannski 1,5 millj. kr. Þau eru á hjólum og geta menn tengst í gegnum þau inn á fundi þannig að nærvera manna væri miklu meira á fundinum þrátt fyrir að þeir væru ekki sjálfir á staðnum. Það er mjög áhugavert að skoða myndbönd af þessu tagi. Á síðustu misserum hafa komið fram svokölluð armvélmenni sem eru sett á fundarborðið þannig að nærvera fundarmanna í gegnum síma er miklu meiri en áður hefur þekkst með þessari tækni. Mönnum finnst þeir vera miklu meira inni á fundinum og aðrir fundarmenn sjá þá á fundinum þó að þeir séu ekki á staðnum. Svona vélmenni kostar um 100 þúsund kall. Það þarf því bara eina eða tvær fundarferðir til að svona vélmenni borgi sig. Ég myndi vilja okkur sjá taka til hendinni í þessum efnum. Svo má velta fyrir sér hvort við þingmenn mættum ekki vera með einhvers konar fjarfundabúnað í tölvunum okkar. Mér skilst að á því máli séu einhverjar tæknilegar hliðar. En ég hvet þá þingmenn sem hafa vit á því að skoða hvað kemur í veg fyrir uppsetningu fjarfundabúnaðar. Ég held að það gæti hjálpað okkur mikið í störfum okkar að fá slíkt aðgengi, hvort sem það er í gegnum Zoom-fjarfundabúnaðinn með öðrum leiðum.

Ég held að það væri virkilega gott verkefni að setja slíkan vinnuhóp af stað, ef við fengjum þingsályktunartillöguna samþykkta, þannig að vinna í þessu efni gæti hafist vegna þess að ég held að það sé kostnaðarhagræði af því. Ég held að það myndi spara töluvert mikið í stjórnsýslunni og ekki hvað síst fyrir þá sem úti á landsbyggðinni eru og þurfa oft að sækja hér endalausa fundi. Af því hlýst mikill kostnaður. Þannig að ég fagna þessari þingsályktunartillögu mikið.