148. löggjafarþing — 23. fundur,  7. feb. 2018.

samræming verklags um fjarfundi á vegum ráðuneyta.

45. mál
[16:38]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að fagna þeirri góðu þingsályktunartillögu sem lögð er fram af hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur ásamt fleirum. Í nútímasamfélagi þar sem eiga má gæðamyndsamtöl um allan heim hvar og hvenær sem er í gegnum jafn einföld tól og þetta hlýtur að vera hægt að finna betri og aðgengilegri leiðir fyrir fólk að mæta til fundar, til að mynda við ráðuneytin og þingnefndir, en að þurfa annaðhvort að fljúga á staðinn eða vera í síma sem gefur ekki sömu tilfinningu og myndsamtal eða það að vera á staðnum.

Það að Ísland sé í þeirri sérstöku aðstöðu að vera nánast borgríki leggur jafnvel enn ríkari skyldur á herðar okkar að tryggja aðgengi allra íbúa, óháð búsetu, að stjórnsýslu og þjónustu ríkisins. Eins og kemur fram í greinargerð ályktunarinnar er ekki forsvaranlegt að aðilar með aðsetur á suðvesturhorninu hafi greiðara aðgengi að stjórnsýslunni en aðilar á landsbyggðinni.

Þetta er sérstaklega kjánaleg hugsun í dag þar sem, eins og ég kom inn á fyrr í ræðunni, myndræn samskipti hafa aldrei verið einfaldari. Eins og hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson kom inn á áðan hefur tækninni fleygt fram. Hv. þingmaður nefndi skemmtileg dæmi um hvað Háskólinn á Akureyri hefur staðið sig vel í því samhengi. Þar hefur verið tekið í notkun vélmenni eða svokölluð fjærvera eins og þau hafa kosið að kalla það. Vélmennið eða fjærveran er kölluð Krista og henni ætlað að einfalda þátttöku á fundum og/eða í kennslustundum. Hugmyndin er að auðvelda þátttöku fjarnema, gera þeim auðveldara að eiga í samskiptum við staðarnema, að þeir geti tekið virkari þátt í umræðum og jafnvel farið með staðarnemum inn í matsal. Vélmennið er hreyfanlegt og getur ekið um á allt að 3 km hraða, sem getur verið mjög skemmtilegt á göngum háskólans.

Það sem er enn mikilvægara er að stýrikerfi vélmennisins er einfalt í notkun og hægt er að nota það í gegnum tölvu, spjaldtölvu og síma.

Ég vil nýta tækifærið og leggja áherslu á að notuð verði í þeirri vinnu sem vonandi verður sett af stað í ráðuneytunum aðgengileg tækni sem krefst ekki endilega sérstaks tæknibúnaðar, þannig að aðgengi verði einfalt og þægilegt og ekki þurfi að fara á ákveðna staði þar sem í boði er fjarfundabúnaður eða eitthvað slíkt, heldur sé hægt að nota tæki eins og þetta.

Herra forseti. Ég er mjög jákvæð gagnvart þessari ágætu þingsályktunartillögu en ég hefði gjarnan, eins og hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson kom inn á áðan, viljað sjá hana ganga lengra og jafnvel talsvert lengra og ná yfir víðara svið en eingöngu ráðuneytin. Ég hef á síðustu vikum fengið ábendingar úr ýmsum áttum um stöðu sérfræðinga sem eru beðnir um að mæta á fundi þingnefnda án þess að vera á vegum stofnana eða fyrirtækja. Þeir eru í þeirri stöðu að þurfa sjálfir að leggja út fyrir ferðakostnaði og mögulegri gistingu. Kostnaður getur hlaupið á 48–55 þús. kr., bara fyrir flugið til að mynda, og þeir þurfa að leggja á sig mörg hundruð kílómetra ferðalag til að mæta á fund þingnefndar, oft jafnvel aðeins í örskamman tíma. Þetta er staðreynd sem verður til þess að sumir treysta sér ekki til að mæta til fundar við nefndirnar eða velja að vera með í síma, sem gefur því miður einfaldlega ekki sömu tækifæri til umræðu og þegar rætt er augliti til auglitis eða mynd í mynd. Það er náttúrlega tap fyrir okkur sem vinnum málin, okkur þingmennina í nefndunum, því að þá missum við jafnvel af áliti sérfræðinga sem gæti haft mjög mikil áhrif á afgreiðslu mála.

Auðvitað ná margir að nýta ferðina og taka fleiri fundi á höfuðborgarsvæðinu í leiðinni eða sinna öðrum erindum. En það breytir ekki þeirri staðreynd að í dag er tæknin orðin það góð og það örugg að sjálfsagt mál ætti að vera að hitta þingnefndir eða ráðuneyti í gegnum netið, til að mynda í gegnum þau forrit sem nefnd eru í þingsályktunartillögunni.

Í nútímasamfélagi þar sem eiga má myndsamtöl hvar og hvenær sem er í gegnum farsíma hljótum við að geta fundið betri og aðgengilegri leið fyrir fólk til að mæta til fundar við þingnefndirnar eða ráðuneytin en að fljúga á staðinn eða vera með í síma.

Ég vil ganga svo langt að skora á hæstv. forseta og forsætisnefnd að setja af stað á sama tíma sambærilega vinnu innan þingsins, enda segir í greinargerð tillögunnar, svo að ég vitni aftur í hana, að sterk jafnræðissjónarmið mæli með því að aðilum sem sækja fundi hjá ráðuneytum bjóðist að gera það í gegnum myndsamtal.