148. löggjafarþing — 23. fundur,  7. feb. 2018.

samræming verklags um fjarfundi á vegum ráðuneyta.

45. mál
[16:44]
Horfa

Alex B. Stefánsson (F):

Virðulegur forseti. Það ber að fagna þeirri heildarsamræmingu sem hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir leggur til með þingsályktunartillögu sinni um samræmingu verklags á fjarfundi á vegum stjórnsýslunnar. Staðlasetning, sem þetta mál snýst í raun um, er einmitt hugsuð til að finna reglur um hvernig hlutirnir passa og að þeir skili því sem þeir eiga að skila. Til þess að uppfylla gæðastaðla þurfum við reglur, leiðbeiningar og skilgreiningar. Í rauninni er hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir að koma hér með nokkurs konar gæðastaðal fyrir stjórnsýsluna.

Áður hefur komið fram að slík aðgerð getur sparað íslenskum skattborgurum jafnvel tugmilljónum króna á ári í tíma- og ferðakostnað. Það er jákvætt. Það sést vel með þessari tillögu að Framsóknarflokkurinn er jafnréttisflokkur. Það er nákvæmlega það sem tillagan gengur út á, að tryggja jafnt aðgengi um allt land að stjórnsýslunni. Ég vona svo innilega að þessi aðgerð, verði hún að veruleika, og ég treysti því, geti verið fyrirmynd fyrir heilbrigðisþjónustuna í framtíðinni, að hér fáist reynsla og þekking á því hvernig vinna á með fjarfundabúnað með vélmennum eða annað sem hv. þingmenn hafa bent á. En númer eitt, tvö og þrjú lýsi ég ánægju með þessa þingsályktunartillögu og styð hana heils hugar.