148. löggjafarþing — 23. fundur,  7. feb. 2018.

samræming verklags um fjarfundi á vegum ráðuneyta.

45. mál
[17:01]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það er kannski ekki miklu við það að bæta sem hér hefur komið fram. Ég missti aðeins af upphafi umræðunnar. En engu að síður er þetta eitt af því sem ég hef oft talað um í þinginu. Þegar ég sat í sveitarstjórn Fjallabyggðar fannst okkur frekar dýrt að senda fulltrúa bæði meiri hluta og minni hlutans til Reykjavíkur fyrir 15 mínútna fund með fjárlaganefnd. Ég lagði til að við óskuðum eftir fjarfundi. Við funduðum í gegnum fjarfundabúnað fyrstu árin eftir að Siglufjörður og Ólafsfjörður voru sameinaðir í Fjallabyggð vegna þess að það voru engin Héðinsfjarðargöng þá og um langan veg að fara yfir vetrartímann þannig að allir okkar fundir fóru fram í gegnum fjarfundabúnað nema bæjarstjórnarfundir. Þá sátum við á sama stað, sveitarstjórnin, til skiptis á Ólafsfirði og Siglufirði.

Svo kom þetta upp. Orðið var við þessu hjá fjárlaganefnd og skipti það miklu máli. Þá gátu fleiri fulltrúar setið fundinn, þ.e. bæjarfulltrúar. Þetta eykur líka lýðræði, ekki bara hjá sveitarstjórnum heldur líka gagnvart þjónustu við hinar dreifðu byggðir og stofnanir sem þar eru.

Ég tel afar brýnt að þetta sé gert. Það er í rauninni ótrúlegt að árið 2018 skulum við vera í þeim sporum að vera yfir höfuð að ræða þetta, að þetta sé ekki bara búið og gert. En við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd.

Hér er búið að tala um margt. Mér finnast ágæt orð hv. þingmanns sem talaði á undan mér um fjötra hugarfarsins af því að ég held að það sé akkúrat það að fólk miklar þetta fyrir sér og telur miklu betra að koma á staðinn og funda. Auðvitað er það oft og tíðum ágætt, en það er líka oft mikil tímasóun, fólk þarf ekki að leggja land undir fót og borga töluvert fyrir það, heldur er þetta líka tími fjarri heimahögum þar sem fólk vinnur alla jafna þótt sé verið að reyna að nýta tímann til að hitta fleiri og gera meira.

Það er mjög mikilvægt að fjarfundum verði fjölgað enn frekar, að við drögum úr því að fólk þurfi að ferðast um langan veg til þess að sitja jafnvel stutta fundi. Ég held að þetta sé gott mál.

Hér var nefnd fjarheilbrigðisþjónusta. Það er svo margt sem við getum nýtt okkur í þessu samhengi, sálgæslu og annað slíkt, sem er gott að hafa tækifæri til að sinna í gegnum fjarfundabúnað. Það venst ótrúlega fljótt að funda. Það er ekki eins og það sé einhver fornaldarbúnaður í boði. Eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson rakti áðan er til alveg ágætur búnaður til að sinna þessu.

Ég held að það sé bara mjög mikilvægt að sá hópur sem hér á að skipa komi með raunverulega innleiðingaráætlun með tímaramma þannig að þetta verði ekki gert í mörgum áföngum. Þetta á ekki að vera svo flókið, ráðuneytin eru nú ekki mörg, þannig að það ætti að vera hægt að gera þetta á mjög skömmum tíma, finnst mér. Ég mun fylgja því eftir í þingflokki mínum að hæstv. forsætisráðherra setji þessa vinnu í gang, hvort sem málið nær fram að ganga eða ekki.

Svona þingmannamál týnast oft í nefndum og maður þarf að velja ef maður ætlar að fá einhver mál í gegn. En mér finnst einboðið að gera þetta, það er hægt að gera þetta á tiltölulega skömmum tíma án þess að það kosti óskaplega mikla peninga. Ég þakka hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur fyrir að drífa þetta mál hér inn. Ég mun ræða það við ráðherra minn og fylgja því eftir að hún setji þessa vinnu í gang.