148. löggjafarþing — 23. fundur,  7. feb. 2018.

greiðsluþátttaka sjúklinga.

44. mál
[17:13]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari þingsályktunartillögu sem hv. þingmenn Samfylkingarinnar leggja hér fram. Þetta er góð brýning til ríkisstjórnarinnar að fylgja eftir stefnu í núverandi stjórnarsáttmála þar sem segir, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin ætlar að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu og gera það gagnsærra og skilvirkara. Það þarf að meta árangur núverandi kerfis með hliðsjón af veikasta fólkinu og skoða þá þætti sem eru ekki hluti af því, t.d. ferða- og uppihaldskostnað, tannlækningar og sálfræðiþjónustu.“

Stefna ríkisstjórnarinnar endurspeglar áherslur Framsóknarflokksins fyrir síðustu kosningar og því get ég svo sannarlega tekið undir allar tillögur sem leiða í þessa átt.

Í dag er greiðsluþátttaka sjúklinga 69.700 kr. fyrir einstaklinga samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Sjúkratrygginga, þetta er fyrir hinn almenna notanda og rúmlega 46.000 kr. fyrir börn, aldraða og öryrkja. Þannig getur hámarkskostnaður fyrir fjögurra manna fjölskyldu, sem samanstendur af tveimur fullorðnum og tveimur börnum, numið rúmlega 230.000 kr. á ári. Þetta er auðvitað fyrir utan kostnað sem stafar af ferðalögum, húsnæðiskostnaði og vinnutapi.

Mikilvægt er að koma fleiri þáttum inn í greiðsluþátttökukerfið eins og sálfræðiþjónustu og tannlæknakostnað. Reyndar er það mjög sérstakt að þessir þættir séu skildir frá. En í þessari umræðu má líka minna á þann ójöfnuð sem fólk býr við vegna aðgangs að heilbrigðisþjónustu víða um land. Þetta getur verið gríðarlegur kostnaður sem leggst á einstaklinga og fjölskyldur ofan á álag vegna sjúkdóma og fötlunar.