148. löggjafarþing — 23. fundur,  7. feb. 2018.

mannanöfn.

83. mál
[17:51]
Horfa

Flm. (Hanna Katrín Friðriksson) (V):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um mannanöfn. Að þessu máli stendur allur þingflokkur Viðreisnar auk hv. þingmanna Helga Hrafns Gunnarssonar og Guðjóns Brjánssonar.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem gerð er atlaga að hinum sérkennilegu lögum sem gilda hér á landi um mannanöfn, lögum sem koma í veg fyrir hinn sjálfsagða rétt foreldra að ráða nafni barna sinna og að fólk eigi yfir höfuð þann sjálfsagða rétt að ráða eigin nafni. Vonandi lætur steingervingurinn undan síga að þessu sinni.

Flestir geta líklega tekið undir að fátt er fólki jafn persónulegt og eigið nafn. Hið sama á við um þá ákvörðun foreldra hvað barnið þeirra eigi að heita. Þetta þýðir alls ekki að fólk geti ekki haft ríka skoðun á nöfnum annarra, allt frá því að trúa því að heilu tungumálin standi og falli með því að ríkið sé þarna allsráðandi og yfir í það að hafa einfaldlega skoðun á því hvaða nöfn eru falleg og boðleg og hvaða nöfn eru það ekki. Ég fell vissulega í þann hóp að hafa stundum ákveðna skoðun á nöfnum en ég hef ekki enn upplifað slíkt ónefni að mér þyki það réttlæta opinbert eftirlit með nafngiftum. Komi slíkt upp er einfaldlega eðlilegt að barnaverndaryfirvöld grípi þarna inn í. Ef foreldrar eru tilbúnir að gefa barni sínu slíkt ónefni er í raun mjög jákvætt að slíkar vísbendingar um vanrækslu komi upp strax í frumbernsku frekar en síðar á leiðinni og með fullri virðingu fyrir því ágæta fólki sem skipar mannanafnanefnd tel ég að önnur yfirvöld líkt og barnaverndaryfirvöld séu betur til þess fallin að vera leiðbeinandi aðilar í uppeldi íslenskra barna og ungmenna.

Ég er heldur ekki þeirrar skoðunar að íslensk tunga standi og falli með því að nöfn fólks séu í samræmi við íslenskt málkerfi, taki eignarfallsendingu eða hafi unnið sér hefð í málinu, svo vitnað sé í núgildandi nafnalög, hvað þá að ríkið eigi að ráða hámarksfjölda nafna sem einstaklingar geti borið, hvernig millinöfn og kenninöfn megi vera, greint sé á milli kvenmannsnafna og karlmannsnafna o.s.frv.

Í vikunni bárust einu sinni sem oftar fréttir af baráttu foreldra við mannanafnanefnd, að þessu sinni þar sem nefndin samþykkti ekki kvenmannsnafnið Alex. Þetta mál er í sjálfu sér ekkert ólíkt öðrum málum sem reglulega koma upp en eftirfarandi vakti hins vegar sérstaka athygli mína í frétt Morgunblaðsins, með leyfi forseta:

„Þegar við fengum neitun síðast“ — þau hafa reynt áður — „stóð í rökstuðningi mannanafnanefndar að þeir væru búnir að samþykkja nokkur nöfn fyrir bæði kynin og því væri skiljanlegt að við héldum að við gætum fengið þessu breytt en hefðin fyrir karlmannsnafninu Alex væri gömul og því ekki neitt sem segði að þeir þyrftu að breyta því. Að áliti nefndarinnar fellur nafnið að íslensku málkerfi og það væri ekki til ama fyrir stúlkur að heita því en út af hefðinni verður því ekki breytt.“

Fyrir hverja er verið að vinna með þessu fyrirkomulagi, virðulegur forseti? Yfirlýst markmið núgildandi mannanafnalaga er m.a. að vinna að varðveislu íslenska mannanafnaforðans og íslenskra nafnasiða. Forsjárhyggja af þessu tagi á einfaldlega ekki heima í nútímasamfélagi. Ef Íslendingar vilja almennt varðveita íslensk nöfn og nafnahefð, og persónulega hef ég trú á því að svo sé, gera þeir það sjálfir án hjálpar sérstaklega tilnefndra aðila í opinberum nefndum eða stofnunum.

Annað markmið núgildandi laga eftir síðustu breytingar er að rétta hlut útlendinga sem flytja hingað til lands þannig að þeir séu ekki þvingaðir til að taka sér íslensk nöfn eins og áður var. Fyrir það jákvæða skref er rétt að þakka.

Ég get reyndar sagt hér stutta sögu úr raunveruleika eigin fjölskyldu þar sem skilyrði þess að föður mínum, hinum danskborna Torben Frederiksen, væri veittur íslenskur ríkisborgararéttur á sjötta áratugnum var ekki eingöngu að eftirnafn hans yrði íslenskað, Friðriksson, heldur tæki hann upp íslenskt eiginnafn sem stæði framar hinu danska, en því fékk hann með semingi að halda. Karl faðir minn féllst á þetta og nýr Íslendingur á þrítugsaldri varð til undir nafninu Friðrik Torben Friðriksson. Hinn nýi Íslendingur hélt niður á Hagstofu og nýtti sér þar rétt sinn sem íslenskur ríkisborgari og fékk fyrra nafnið fellt niður.

Svona æfingar eru sem sagt óþarfar í dag enda fær maður sem heitir erlendu nafni íslenskt ríkisfang og má hann þá heita fullu nafni sínu óbreyttu eins og segir í núgildandi lögum.

Nú er hins vegar svo komið að stór hluti, sífellt stækkandi hluti jafnvel, af íbúum landsins er fólk sem fætt er í útlöndum og með erlendan ríkisborgararétt. Núgildandi nafnalög ná ekki yfir þennan hóp sem getur þannig leyft sér að velja sjálfur nöfn á börn sín án afskipta hins opinbera.

Eins fjölgar hér á landi hjónaböndum þar sem annað hjóna er erlent. Þá vaknar steingervingurinn. Íslenska ríkið vill skipta sér af nafngiftum barnanna, eitt erlent nafn má ef íslenskt eiginnafn fylgir. Síðan gilda eins og þekkt er enn þrengri reglur um nöfn barna sem tveir íslenskir borgarar eiga saman.

Lög um mannanöfn hafa gilt á Íslandi frá árinu 1914. Ný lög voru samþykkt 1925, 1991 og 1996. Mannanafnanefnd hefur síðan það hlutverk að úrskurða í vafamálum um uppfyllingu laganna. Upp úr aldamótunum 1900 snerust þær deilur að miklu leyti um inntak þjóðhollustunnar, en í kringum síðustu aldamót var farið að bera meira á gagnrýni á grundvelli mannréttinda, á grundvelli sjálfsákvörðunarréttar einstaklinga og sjálfsmyndar. Reyndar má halda því fram að lög um mannanöfn eins og þau eru nú leiði af sér brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Útlendingar sem gerast íslenskir ríkisborgarar mega halda upprunalegu nafni sínu óbreyttu á meðan aðrir lúta reglum samkvæmt lögum um mannanöfn.

Undanfarin ár hafa verið lögð fram frumvörp á Alþingi um að leggja niður mannanafnanefnd og mannanafnaskrá og fela innanríkisráðherra hlutverk mannanafnanefndar. Það er hins vegar breyting sem gengur of skammt vilji fólk á annað borð losna við forsjárhyggjuna í þessum málum.

Markmiðið með því frumvarpi sem hér er lagt fram er m.a. að tryggja rétt einstaklinga til að bera það nafn eða þau nöfn sem þeir kjósa og tryggja að lög um mannanöfn takmarki ekki persónufrelsi fólks eða frelsi fólks til að skilgreina sig. Frumvarp um breytingar á gildandi mannanafnalögum var síðast lagt fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015 en náði ekki fram að ganga. Þótt það frumvarp hafi verið efnislega svipað þessu gekk það í vissum atriðum skemmra. Hér er t.d. lagt til að ekki verði gerður greinarmunur á eiginnöfnum og millinöfnum og að skylda til að kynbinda kenninöfn barna til foreldra verði felld brott.

Það sem þetta frumvarp sem hér er rætt á sammerkt með því frumvarpi sem lagt var fram síðast, á 144. löggjafarþingi, er t.d. brottfelling ákvæða um að stúlkum skuli gefin kvenmannsnöfn og drengjum karlmannsnöfn, að nöfn megi ekki brjóta í bága við íslenskt málkerfi og að nafn megi ekki vera nafnbera til ama. Þá er lagt til að mannanafnanefnd verði lögð niður og öll ákvæði um hana felld brott. Greinargerðin með þessu frumvarpi er síðan byggð á greinargerð síðasta frumvarps um breytingar á mannanafnalögum að því leyti sem við á.

Vegna þess hve víðtækar breytingar á gildandi mannanafnalögum felast í frumvarpinu þykir rétt að leggja fram frumvarp um ný heildarlög í stað breytinga á gildandi lögum.

Í þessu nýja frumvarpi eru þrír kaflar í stað níu í núgildandi lögum. Ég ætla að skauta á nokkrum atriðum í því.

Í I. kafla, um fullt nafn og nafngjöf, segir í 1. gr.: Allir hafa rétt til nafns. Fullt nafn einstaklings er eiginnafn hans eða eiginnöfn og kenninafn eða kenninöfn. Hver einstaklingur skal bera bæði eiginnafn og kenninafn.

Hér er sem sagt einfaldlega kveðið á um að millinöfn séu felld úr lögunum og þau millinöfn sem nú eru í notkun geti þá annaðhvort verið skráð sem eiginnafn eða ættarnafn eftir því hvað nafnberinn kýs.

Í 2. mgr. 1. gr. er kveðið á um kenningu til foreldra. Í því kemur fram að undir það falli einnig kenning til foreldra barns sem getið er við tæknifrjóvgun. Sá hluti ákvæðisins er samhljóða ákvæði núgildandi laga.

Enn fremur er kveðið á um að kenninöfn séu mynduð þannig að á eftir eiginnafni eða eiginnöfnum komi nafn foreldris eða foreldra í eignarfalli, að viðbættu son, dóttir, barn eða bur. Þetta ákvæði 3. mgr. 1. gr. er samhljóða ákvæðum gildandi laga að því viðbættu að kenninafn getur tekið endingarnar barn eða bur. Bur er ókyngreint hugtak af sama stofni og að bera eða barn. Þetta hugtak var lagt til af Samtökunum '78 árið 2015 sem annar valkostur í stað endinganna -son eða -dóttir og endingin barn getur gegnt sama hlutverki. Þykir ekki ástæða hér til að takmarka val fólks við aðeins annað tveggja hér.

Þá er lögð til breyting á ákvæði um að eingöngu sé heimilt að ófeðrað barn sé kennt til afa síns, við bætum við til ömmu sinnar og jafnframt að heimilt sé að nota ættarnafn sem kenninafn. Er í þeim tilfellum ekki skylt að kenna barn til foreldris eða foreldra.

Hér er skautað á ýmsu. Í frumvarpinu er líka kveðið á um að barn öðlist aðeins nafn með tilkynningu til Þjóðskrár Íslands. Sú breyting er þar gerð frá gildandi lögum að barn öðlist ekki nafn við skírn í þjóðkirkjunni, skráðu trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi heldur sé það með tilkynningu til Þjóðskrár. Við skráningu nafns í Þjóðskrá Íslands skal einnig skrá kyn barns. Heimilt er að skrá kyn sem karlkyn, kvenkyn eða annað. Heimilt er hverjum einstaklingi að breyta skráningu kyns og skal sú heimild háð sömu reglu og heimild til breytingar á nafni samkvæmt lögum þessum. Þótt þetta frumvarp heiti frumvarp til laga um mannanöfn er ekki hægt að finna þessu ákvæði annan stað í lögum þannig að því var bætt inn hér til að einfalda breytingar.

Síðan ætla ég að lokum hér í yfirferð um ákveðin ákvæði að nefna að undir kaflanum um nafnbreytingar er einfaldlega ákvæði í 4. gr. um að heimilt sé hverjum einstaklingi að breyta nafni sínu. Takmarkanir við því eru þar með felldar úr lögum samkvæmt frumvarpi þessu.

Virðulegi forseti. Í greinargerð með frumvarpinu eru kaflar sem fjalla um réttinn til nafns, um íslenska nafnahefð og um málkerfi íslenskrar tungu. Síðan eru réttindi barna.

Að lokum er í greinargerðinni kafli um réttindi transfólks, en núgildandi lög eru mjög takmarkandi fyrir transfólk og endurspegla ekki fjölbreytni samfélagsins okkar, hvorki hvað varðar kynbindingu nafna né rétt einstaklinga til að breyta nafni sínu. Með því að skilgreina sérstaklega hvað eru kvenmannsnöfn eða karlmannsnöfn er löggjafinn að takmarka frelsi einstaklingsins til að skilgreina sig og sitt kyn. Það er með öðrum orðum skerðing sem gengur mjög nærri persónu fólks, skerðing á mikilvægu og persónulegu frelsi þess. Mun ríkari hagsmunir felast í því fyrir íslenskt samfélag að einstaklingar fái að heita þeim nöfnum sem þeir velja sér en að viðhalda boðum og bönnum núgildandi laga um mannanöfn. Útgangspunkturinn í þessari umræðu er frelsið.

Virðulegur forseti. Í um þúsund ár hafði íslensk þjóð fullt og óskorað frelsi til að nefna börn sín þeim nöfnum sem hún kaus. Þetta frelsi skilaði þeirri nafnahefð sem Alþingi hefur síðustu áratugi talið þörf á að festa í sessi með sérstökum mannanafnalögum og mannanafnanefnd. Er ekki kominn tími til að treysta fólki aftur fyrir eigin nöfnum? Eru það ekki almannahagsmunir?

Ég vonast til að sjá þetta mál afgreitt fljótt og vel með jákvæðri umsögn.