148. löggjafarþing — 23. fundur,  7. feb. 2018.

mannanöfn.

83. mál
[18:09]
Horfa

Flm. (Hanna Katrín Friðriksson) (V) (andsvar):

Já, takk fyrir. Tvíþætt. Svar mitt út frá þeim skaða sem börn gætu orðið fyrir af völdum foreldra sem skírðu þau einhverjum ónöfnum; svarið var skaðinn, ekki nafnið. Barnaverndaryfirvöld grípa ekki inn í af því eina tilefni, sé ég fyrir mér, að eitthvert nafn sé gefið, heldur af því að það er skaði fyrir barnið. Það var útgangspunkturinn í spurningu hv. þingmanns.

Síðan hvað varðar hefðina. Ég vona að við séum nokk sammála um hvað íslenskt mál, íslenskt tungumál, þróun þess og tilvera er mikilvægt fyrir íslenska menningu. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að mikilvægið liggi ekki síður í því að það fái að þróast. Þetta er lifandi tungumál. Ég hef miklu meiri áhyggjur af framtíð íslenskunnar ef við niðurnjörvum hana í svona boð og bönn vegna þess að fólk finnur sér leiðir fram hjá, það fer að hætta að upplifa þetta sem vin okkar. (Forseti hringir.) Íslensk tunga á að vera vinur íslenskrar menningar og íslenskrar þjóðar. Það er þaðan (Forseti hringir.) sem þessi nálgun mín kemur í þessu máli. Ég hef akkúrat engar áhyggjur af þróun íslenskrar tungu með því að gefa þetta frjálst.