148. löggjafarþing — 23. fundur,  7. feb. 2018.

mannanöfn.

83. mál
[18:21]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja eins og er að ég ber ómælda virðingu fyrir hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir að geta verið svona diplómatísk yfir þessu máli. Ég á við þann skapgerðarvanda að etja að ég verð pínulítið reiðari þeim mun meira sem ég hugsa og tala um þetta mál. Ég ætla að reyna að hafa hemil á mér í dag en ég ætla samt að vera frekar tæpitungulaus og fara yfir nokkra hluti sem eru oft nefndir í þessari umræðu.

Eitt af því er það að við höfum hér á Íslandi ákveðnar hefðir. Það er samkvæmt hefð að ég heiti Helgi Hrafn Gunnarsson, eftir fyrsta nafni föður míns, eiginnafni hans, sem mér finnst mjög skemmtilegt. Mér finnst gaman að vera kenndur við pabba minn enda er hann frábær gaur ef út í það er farið.

Það eru ekki málefnalegar forsendur fyrir því að takmarka frelsi fólks á þennan hátt, það er bara einfalt. Það eru algjörlega ómálefnalegar forsendur fyrir því að takmarka frelsi fólks með þessum hætti. Það er bara ekki nógu mikilvægt. Það kemur fólki ekki nógu mikið við, það er bara svo einfalt. Hvað með það þótt fólk úti í bæ fari ekki eftir hefðum, mér þykir vænt um þessa hefð og ég hyggst halda í hana og ég þekki sárafáa sem hafa sagt mér að þeir myndu gera eitthvað annað, þekki nokkra en ekki marga. Vegna þess að okkur finnst hefðin skemmtileg, mér finnst hefðin skemmtileg, mér finnst það. Ekki vegna þess að ríkið sagði mér það, heldur vegna þess að ég er alinn upp hér á Íslandi og mér þykir vænt um þessa tilteknu hefð, persónulega mér.

Ef fólk telur að þessar hefðir séu mikilvægar í einhverjum kosmískum skilningi vænti ég þá hljóta þær að halda. Ef ekki þá eru þær ekki það mikilvægar. Hvernig myndum við meta það hvort að þær séu mikilvægar eða ekki? Jú, út frá metnaði samfélagsins fyrir því að halda í þær. Ef samfélagið vill ekki halda í þær þá eru þær ekki mikilvægar samkvæmt nokkurri heilsteyptri skilgreiningu. Þótt mér finnist ægilega gaman að þessum tilteknu hefðum.

Þrátt fyrir það að ég hafi gaman af hefðinni mundi ég samt vilja breyta henni kannski alla vega áður en að nafnið mitt varð svona út um allar trissur þá hafði ég alveg hug á að breyta því eitthvað. Mig langaði á sínum tíma að breyta því í Helgi Hrafn Kristínar- og Gunnarsson. Það er í samræmi við íslenska ritvenju en ég mátti það ekki. Það þurfti að vera Helgi Hrafn Kristínarson Gunnarsson sem er algjörlega úti á túni ef maður ætlar að skrifa nafn einhvers að mínu mati og samkvæmt mínum málskilningi og minni máltilfinningu. Þá er ég að reyna að útvíkka hefðina og gera hana betri. Það má ekki vegna þess að það er búið að ákveða að ríkið eigi að segja mér hvaða hefðir séu mér mikilvægar, sem er fráleitt.

Það er svo annað mál að við erum einfaldlega ekkert öll strákar og stelpur. Ég yrði líklega Gunnarsson áfram vegna þess að ég er strákur, ég upplifi mig sem strák og finnst ekkert að því að vera strákur, mér finnst það fínt, persónulega, enda ýmis forréttindi sem því fylgja, en það er önnur saga. Það er fullt af fólki sem er ekki þar og gæti kannski viljað heita Helgi Hrafn Gunnarsbur eða Helgi Hrafn Gunnarsbarn, heldur í hefðina, gefur meira frelsi til að halda í hefðina og gerir hana ríkari og dýrmætari fyrir vikið. En það má ekki vegna þess að ríkið vill að við höfum þetta áfram eins og þetta var fyrir langa löngu. Síðast en ekki síst gæti ég verið Helgi Hrafn Gunnars, bara með eignarfallsendingu. Af hverju ekki? Mér finnst það skemmtilegt, mér finnst það nýtt, það er gaman pínulítið ættarnafnalegt en samt ekki. Mér finnst það gaman, mér finnst að við eigum að hafa frelsi til að leika okkur þannig með nöfnin okkar þegar við viljum. Að því sögðu þá hyggst ég ekkert breyta nafninu mínu í náinni framtíð, þótt það geti auðvitað breyst. Vonandi, þ.e. ef þetta frumvarp verður að lögum í dag.

Eins og hv. þm. Brynjar Níelsson sagði: Þetta eru menningarverðmæti. Já, ég er sammála því persónulega og fólk getur þá einfaldlega haldið upp á þau, það er enginn að leggja til að hefðirnar verði bannaðar eða afmáðar eða teknar í burtu. Bara það að við séum ekki að vasast í algjöru einkamáli hvert annars þegar kemur að því að halda í þessar hefðir. Nú vil ég ítreka að við erum ekki að tala um lýðheilsu eða fjármálastöðugleika, við erum að tala um hefðir, fjárinn hafi það, virðulegi forseti. Hefðir af öllum hlutum.

Eitt af því sem er líka nefnt í þessu, og ég deili áhyggjum af, er íslensk tunga. Nú er íslensk tunga sem betur fer ekki dautt tungumál. Við erum sífellt að finna upp ný orð, málvenjur breytast, þær eru pínulítið staðbundnar, reyndar frekar lítið á Íslandi en samt eitthvað. Sumir nota aldrei viðtengingarhátt, hef ég tekið eftir, og sumir fallbeygja aðeins öðruvísi en aðrir. Það er bara gaman og það er hluti af því sem gerir tungumál skemmtileg; það segi ég sem sérlegur áhugamaður um tungumál og ekki síst íslensku. En íslensk nöfn þróast líka. Hér er þingmaður sem heitir Óli, hv. þm. Óli Björn Kárason, hann heitir Óli. Einhvern tímann var það stytting á nafninu Ólafur og hér höfum við annan hv. þm. Ólaf Þór Gunnarsson. Á einhverjum tímapunkti varð þetta nafn, Óli, sem sé persónulegra, fólk fór að upplifa styttra nafnið sem stærri hluta af einstaklingi og vildi nefna börnin sín á þann veg.

Í gær kom svo fréttin um hana Alex sem er fjögurra ára stúlka sem fær ekki að heita Alex. Ég þekki konu sem heitir Alexandra, það má, en hún er kölluð Alex. Ég kalla hana alltaf Alex og allir sem ég þekki kalla hana alltaf Alex. Hún má ekki heita Alex, af því bara. Var það af því að ríkinu datt í hug að það gæti verið einhverjum þingmönnum til ama? Samfélaginu til ama? Nei, hún heitir bara Alex, málið er dautt. Þetta er ekkert alvarlegra en það. Aha, nú þarf ég að róa mig aftur niður, vegna þess að ég verð svo reiður við að hugsa um þetta, hvað þá tala um það upphátt.

Svo er líka hitt, íslenskt málkerfi gerir ráð fyrir tveimur kynjum. Það er í fyrsta lagi óþarft, svakaleg oftrú í íslensku samfélagi á mikilvægi þess að nafn sé annaðhvort karlmannsnafn eða kvenmannsnafn. Það þarf ekkert, þetta skiptir engu máli, við getum alveg hugsað um manneskjur án tillits til kyns. Við getum það alveg, það er ekki einhver rosaleg ráðgáta hvernig maður gerir það. Í öðru lagi eru kynin einfaldlega fleiri en tvö. Þau eru ekki bara tvö, þau eru fleiri. Og ég leyfi mér að fullyrða í lokin að frjálslyndi í nafngjöfum er ekki almennt tilgreint eða tínt til þegar talað er um ógnir við íslenska tungu. Tækniframfarir og tvítyngi Íslendinga, þ.e. að þeir tali ensku, er ógn við íslenska tungu. Það er þar sem við eigum að vera á verði. Við ræddum einmitt hér fyrr í dag hvernig við ættum að bregðast við því og sporna gegn því. Ekki það að kona heiti Alex, fráleitt.

Það er stundum nefnt í þessari umræðu að nafnið þitt í Þjóðskrá sé bara útgáfa sem ríkið tekur upp en þú megir alveg kalla þig eitthvað annað. Ó, takk æðislega fyrir að ég megi kalla Alex það sem hún heitir, takk ægilega frjálslynda Ísland fyrir að leyfa mér það. Í fyrsta lagi er þetta móðgun við hugmyndina um að einstaklingar séu yfir höfuð frjálsir. Þetta er algjör móðgun við þá hugmynd að ríkið sé í þjónustu við einstaklingana í samfélaginu en ekki öfugt. Byrjum þar. Í öðru lagi hefur nafn eingöngu þýðingu gagnvart einstaklingi sem hans einkenni. Ein ástæðan fyrir því að ég heyri, þegar einhver segir Helgi, er vegna þess að þetta er hluti af einkenninu mínu og það er bara í samhengi við samfélagið sem ég er í. Það er einungis í samneyti við annað fólk sem nöfnin okkar skipta máli eða hafa yfir höfuð þýðingu og það er þannig á Íslandi, hinu glæsilega tölvuvædda Íslandi, að við flettum nöfnum upp í Þjóðskrá, við gerum það í félagatölunum. Þegar við fáum póst fletta fyrirtækin upp í Þjóðskrá. Við notum Þjóðskrá til að skrá nöfn, hvað annað erum við að skrá? Ef þetta eiga ekki að vera nöfnin sem við notum, ef þetta eiga ekki að vera auðkennin okkar, hvers vegna erum við að skrá þau til að byrja með, af hverju notum við ekki bara kennitölur? Þessi rök falla algjörlega um sjálf sig. Við erum að tala um nafn einstaklings sem er skráð í Þjóðskrá, í þessa miðlægu skrá sem er eitt og sér allt í góðu með að mínu mati.

Það þýðir ekkert að segja að þú hafir frelsi til að kalla fólk eitthvað annað, það eru fráleit rök. Hvað um börnin? Það mætti halda sérstakan pistil um þá spurningu. Eins og ég þreytist ekki á að tönnlast á þá er markmið laganna ekki það vernda börn, þessi lög snerust aldrei um börn. Mannanafnanefnd snýst ekki um börn. Lögin gera engan greinarmun á nafngiftum barna og fullorðinna. Það er mjög skýrt til hvers þessi lög eru. Þau eru til að vernda íslenska nafnahefð. Það er tilgangur laganna, til þess voru þau sett, þetta með börnin á bara ekki við. Lögin koma því ekkert við, það vill bara svo til að það eru líka til börn í samfélaginu og þau þurfa jú, líka að fá nöfn. Og reyndar jú, lögin tilgreina að börn eigi að fá nöfn og fólk eigi að fá nöfn eðlilega. Já, en samt kannski ekki, við ræðum það betur í nefnd.

Eins og hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson fór réttilega yfir áðan, í andsvari við hv. þm. Brynjar Níelsson, þá snýst það ekki um skaðann, þegar við tölum um að börn séu nefnd fáránlegum nöfnum, það snýst ekki um nafnið í sjálfu sér — athugið að í gær var því hafnað að nefna megi stúlku Alex. Á það að skaða hana? Nei, það er ekkert sambærilegt við það að nefna hana Hitler eða Stalín eins og annar hv. þingmaður talaði um. Það er barnaverndarmál og í nefndarstörfum kemur kannski til smábreyting á barnaverndarlögum til að impra á því að barnaverndaryfirvöld eigi líka að skoða þessi mál. Það má alveg gera það mín vegna. Ég held ekki að þess þurfi en ef það friðar samvisku annarra þá gott og vel.

En alla vega: Þetta snýst ekkert um börn. Það er líka annar punktur að nöfn eru ekki fáránleg þó að þau séu óvenjuleg. Nöfn verða venjuleg þegar þau eru notuð. Bergljót er fallegt nafn að mínu mati en þegar ég var fimm ára hugsaði ég: Af hverju heitir hún ljót? Og svo bara vex maður upp úr slíku. Í mínu tilfelli gerðist það reyndar á nokkrum sekúndum. Sturla hljómar eins og kvenmannsnafn. Minnir okkur öll á „sturlað“, segjum það bara upphátt. En maður vex upp úr því á nokkrum sekúndum, það þarf ekki einu sinni að hafa orð á því. Karlmenn heita Sturla — Sturla, um Sturlu, frá Sturlu, til Sturlu. Allt í góðu, það er bara gaman. Mjög skemmtilegt nafn, ég fíla það líka.

Nöfn venjast. Þau eru ekki vond fyrir það að vera óvenjuleg. Þau eru ekki vond fyrir það að vera beygð eins og að nafnorð í öðru kyni eru venjulega beygð eða því um líkt. Síðast en ekki síst þá vil ég segja eitt sem eineltisbarn — ég var lagður í einelti í grunnskóla og tók minn tíma í að ráða við það allt saman. Fólk hefur áhyggjur af því að börn verði nefnd nafni sem einhver gæti strítt þeim á en þá er verið að halda með eineltisseggjunum. Það er verið að sýna fram á að þeir hafi rétt fyrir sér, að maður eigi að stríða fólki fyrir það að bera röng nöfn. Mér finnst það glataður málflutningur. Við eigum aldrei að gefast upp fyrir því að fólki sé strítt á nöfnum sem krökkum finnast asnaleg. Það eru ekki krakkarnir sem eru með „asnalegu“ nöfnin sem eru vandamálið heldur stríðnispúkarnir, eineltisseggirnir. Við eigum aldrei að gefast upp fyrir þeim, svo mikið hef ég lært á lífsleiðinni. Ég nefni það hér þannig að fólk fari vinsamlegast ekki að halda með þeim.

Það eru tæknilegar ástæður fyrir því að við gætum viljað hafa einhver lög eins og þetta frumvarp, verði það að lögum. Nokkur svona praktísk atriði: Íslendingar þurfa að geta lesið nafnið, það er ekki gott ef það er til dæmis ritað með arabísku ritmáli, eins og það er nú fallegt og skemmtilegt. Ég get alveg þýtt nafnið mitt yfir á arabísku, það hljómar svona. [Þingmaður segir nafn sitt á arabísku.] Ég myndi kannski ekki skrifa það þannig í Þjóðskrá vegna þess að mér finnst betra að fólk kunni að bera nafnið mitt fram og þá sérstaklega á okkar ylhýra tungumáli íslensku. Það getur þurft að passa upp á tölvukerfi og kannski lagaferla. Eitt einfalt atriði er lengd nafnsins, það er ekki gott ef nafn getur verið fimm þúsund stafir, það er erfitt að díla við það í tölvukerfum og í stjórnsýslunni. Til þess er þessi reglugerðarheimild, geri ég ráð fyrir. Til þess að leggja mínimalísk kerfisbönd á þetta þannig að það sé yfir höfuð gagnlegt að skrá þetta niður. Það er jú aðalatriðið með því að skrá þetta í Þjóðskrá, að þetta sé gagnlegt. Ef það er ekki gagnlegt þá ættum við bara að sleppa því.

Svo er stundum spurt: Hvað ef einhver heitir bara núll eða upphrópunarmerki eða eitthvað? Já, hvað með það? Þá bara heitir einhver núll, upphrópunarmerki. Og hvað? Fara þá allir að gráta eða hvað? Er það eitthvert vandamál, má það ekki bara? Ég skil ekki hvert vandamálið við það á að vera. Ef einhverjum finnst það kjánalegt þá má viðkomandi finnast það. Verri hlutir hafa nú gerst, aftur þetta er ekki lýðheilsa eða fjármálastöðugleiki, þetta eru hefðir sem um er að ræða.

Víða er gert ráð fyrir eiginnafni og kenninafni, þar á meðal í þessu frumvarpi. Ég hef ekki sterka skoðun á þessu sjálfur. Ég hef reyndar, af því að hafa forritað ansi mörg tölvukerfi í gegnum tíðina, komist að þeirri niðurstöðu að það er enginn sérstök ástæða til að gera greinarmun þarna á. Þegar ég forrita tölvukerfi þá set ég bara einn dálk, bara nafn, og er ekkert að skipta mér af því hvort viðkomandi heitir Prins, eða hvort listamaðurinn hét áður Prins eða Gunnarsson eða eitthvað allt annað. Eða bara Alex. Það bara kemur mér ekki við, þetta er bara dálkur í tölvukerfi, skiptir ekki máli. Það er kannski tæknileg afstaða sem kemur þessu máli ekkert svakalega mikið við en það væri mér að meinalausu að það væri bara nafn og ekkert meira en það. Í öðrum menningarheimum þá tíðkast það að síðasta nafnið sé listað fyrst, ættarnöfn eru sett fyrst í sumum tungumálum eins og í tamíl og fleirum.

Fyrst og fremst finnst mér til skammar að við séum með þessi lög. Mér finnst það svo mikil móðgun við hugmyndina um að einstaklingur sé frjáls, að fá ekki nafnið sitt. Ég hefði haldið að það væri fyrsta frelsið sem við hefðum; frelsi svo sjálfsagt og djúpstætt að við þyrftum ekki að nefna það. Mér finnst það til skammar, mér finnst Alþingi mega skammast sín fyrir að hafa sett þessi lög, fyrir að hafa dirfst að stinga upp á þeim til að byrja með. Mér finnst að íslenska þjóðin megi aðeins skammast sín fyrir að umbera þetta bull. Mér finnst þetta svo mikil móðgun við fyrirbærið, við hugmyndina um einstaklinginn. Eins og ég segi: Það sýður í mér blóðið þegar ég tala um þetta nógu lengi. Þannig að kannski læt ég þetta duga svo að þetta rauða ljós sprengi ekki allt í loft upp.